Viðskipti innlent

Síminn fær ensku úrvalsdeildina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Martial, Shaw og félagar verða í Sjónvarpi Símans frá og með næsta hausti.
Martial, Shaw og félagar verða í Sjónvarpi Símans frá og með næsta hausti. vísir/getty
Síminn og enska úrvalsdeildin hafa náð samningum um sýningaréttinn frá og með tímabilinu 2019/2020. Gildir sýningarrétturinn út þrjú leiktímabil.

Þetta staðfestir samskiptafulltrúi Símans í tilkynningu sem send var til fjölmiðla nú á fimmta tímanum. Í tilkynningunni segist Orri Hauksson, forstjóri Símans, vera stoltur af því að hafa náð ensku úrvaldsdeildinni til sín.

„Enska úrvalsdeildin er eitt vinsælasta sjónvarpsefni landsins og við erum spennt að kynna nýjungar til leiks sem ekki hafa verið í boði áður eins og t.d. 4K útsendingar. Það ætti einnig að gleðja aðdáendur enskrar knattspyrnu að við munum sýna um 15% fleiri leiki í beinni útsendingu en er gert í dag,“ segir Orri.

Sjá einnig: Enski boltinn ekki áfram á Stöð 2 Sport frá og með næsta hausti

Í sömu tilkynningu er haft eftir Richard Scudamor, framkvæmdastjóra ensku Úrvalsdeildarinnar, að hans fólk hlakki til að fá Símann til liðs við sig og að vonir standi til að fyrirtækið geti gert „upplifun aðdáenda enska boltans á Íslandi enn betri.“

Ljóst var í liðinni viku að enska úrvalsdeildin yrði ekki lengur á Stöð 2 Sport, þar sem hún hefur verið sýnd undanfarin ár. Sýn, eigandi Stöðvar 2 Sport, lagði fram tilboð í sýningarréttinn sem var umtalsvert hærra en fyrirtækið hefur greitt undanfarin ár. Það dugði ekki til og sagði forstjóri Sýnar að ljóst væri að borist hafi „ofurtilboð úr annarri átt sem engin glóra væri í að jafna.“

Með tilkynningu dagsins er endanlega ljóst að ofurtilboðið kom frá Símanum, sem talið er að geta numið um tveimur milljörðum króna. Í tilkynningu Sýnar fyrir helgi kom fram að fyrirtækið hafi metið það sem svo að slíkt tilboð „myndi gera það að verkum að tap yrði á þessari starfsemi miðað við eðlilegt verð til viðskiptavina en óverulegur rekstrarhagnaður hefur verið á þessari vöru hingað til.“ 

Vísir er í eigu Sýnar hf.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×