Umhirða minningarmarka er ekki eitt af lögbundnum hlutverkum Kirkjugarða Reykjavíkur en að einhverju leiti hefur því þá verið sinnt. Hins vegar þegar fjármagnið er búið er hætta á að minningarmörkin skemmist.
Morgunblaðið greindi frá því í morgun að legsteinn Jóns Magnússonar, fyrrverandi forsætisráðherra, stæði laskaður í kirkjugarðinum við Suðurgötu eftir að marmaraplata framan á steinum brotnaði. Platan var sett í geymslu og er gröfin því ómerkt.
Ástæðan fyrir því að þetta minningarmark veki athygli er að Jón var fyrsti forsætisráðherra landsins eftir að Ísland fékk fullveldi árið 1918 og var hann einn af þeim sem kom sambandslögunum á það ár. Það vekur því furðu að á hundrað ára afmæli lýðveldisins stendur gröf fyrsta forsætisráðherrans ómerkt.

Heimir segir hlutverk kirkjugarðanna er að halda þeim í heild sinni sem bestum og sem snyrtilegustum.
„Í gegnum tíðina höfum við sinnt, eins og má sjá í þessum garði sérstaklega, þessum pottjárnsgirðingum. Við höfum gerð þær upp. Við höfum gert við stóra steina, en nú er það bara búið, það er liðin tíð, segir Heimir.
Frá hruni hefur fjárveiting til Kirkjugarða Reykjavíkur dregist verulega saman eða um allt að fjörutíu prósent sem hefur mikil áhrif á rekstur garðanna.
„Þetta gengur ekki lengur þessi niðurskurður í þessum fyrirtækjum. Hver ætlar annar að sjá um þetta en hið opinbera? Það eru kirkjugarðar út um allt land sem nánast eru að grafa fólk í sjálfboðavinnu, þetta gengur ekki lengur,“ segir Heimir.