Erlent

Gera örvæntingafulla tilraun til að bjarga norskri freigátu eftir árekstur

Atli Ísleifsson skrifar
Á myndum má sjá að mikið gat er á freigátunni og slagsíða á skipinu.
Á myndum má sjá að mikið gat er á freigátunni og slagsíða á skipinu. AP/Marit Hommedal
Átta manns slösuðust lítillega þegar tvö skip rákust saman í Hörðalandi í morgun. Talsmaður norska hersins segir að freigátan KNM Helge Ingstad og olíuflutningaskipið Sola TS hafi rekist saman. Á myndum má sjá að mikið gat er á freigátunni og slagsíða á skipinu.

NRK  greinir frá því að norski herinn geri nú örvæntingarfulla tilraun til að bjarga skipinu. Alls voru 137 manns um borð í freigátunni og er búið að koma þeim öllum frá borði. Áreksturinn varð klukkan 4:26 að staðartíma í nótt, eða 3:26 að íslenskum tíma.

Norskir fjölmiðlar segja að dráttarbátur hafi einnig átt þátt í árekstrinum. 25 manns voru um borð í olíuflutningaskipinu Sola TS frá Möltu og hefur þeim sömuleiðis verið komið frá borði.

625 þúsund lítrar olíu voru um borð í Sola TS þegar það lagði úr höfn við Stureterminalen og hafa um 10 þúsund lítrar olíu lekið úr skipinu.

Skjáskot af NRK
Tók þátt í NATO-æfingunni

Freigátan KNM Helge Ingstad hefur að undanförnu tekið þátt í Trident Juncture 18, æfingu NATO í Noregi sem staðið hefur síðan 25. september síðastliðinn og lýkur í dag. Trident Juncture er stærsta heræfing NATO frá árinu 1990 þar sem rúmlega 50 þúsund hermenn frá 31 aðildarríki NATO og samstarfsríkja taka þátt. Sextíu skip hafa tekið þátt í æfingunni.

Freigátan KNM Helge Ingstad varð hluti norska sjóhersins árið 2009 og hefur meðal annars verið notuð til að koma efnavopnum frá Sýrlandi á árunum 2013 til 2014. Freigátan er 134 metra löng, 16,8 metra breið 32 metrar á hæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×