Enski boltinn

Klopp: Þurfum að biðjast afsökunar þegar við vinnum leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er eitthvað orðinn pirraður á gagnrýninni á lið hans ef marka má blaðamannafund hans í dag.

Klopp hélt því þar fram að Liverpool þurfi að biðjast afsökunar eftir sigurleiki af því að liðið vinnur leikina ekki eins og lið Manchester City.

Á meðan Manchester City hefur verið að bursta hvert liðið á fætur öðru í öllum keppnum hafa sigrar Liverpool liðsins oft verið allt annað en sannfærandi.

„Þetta tímabil hefur gengið virkilega vel stigalega en okkur líður ekki þannig af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi af því að það er alltaf verið að bera spilamennskuna saman við léttleikandi spilamennsku liðsins á síðasta tímabili og í öðru lagi af því að bæði City og Chelsea eru spila virkilega vel á þessu tímabili,“ sagði Jürgen Klopp.

„Fólk er að segja að þetta verða aðeins vel heppnað tímabil hjá okkur ef við vinnum titilinn. Allir verða að átta sig á því að við erum að keppa við meistara síðustu tveggja ára, endurnýjað Arsenal lið og svo eru Tottenham og Manchester United þarna líka. Við ætlum okkur samt að reyna við alla titla,“ sagði Klopp.



 


„Við vinnum leik en eftir hann þurfum við að biðjast afsökunar á því að hafa ekki unnið hans eins og City vinnur sína leiki. Ég get sagt að við höfum pláss til að bæta okkur en það er engin ástæða til að horfa svona neikvætt á þetta,“ sagði Jürgen Klopp.

„Það eru fullt af hlutum í dag betri hjá okkur en fyrir ári síðan. Við höfum ekki spilað stórkostlegan fótbolta í öllum leikjum en það gerðist heldur ekki í fyrra,“ sagði Klopp.

„Strákarnir í liðinu líta út fyrir að hafa þroskast á þessu eina ári þó þeir hafi ekki sýnt það í síðasta leik á móti Rauðu stjörnunni,“ sagði Klopp.

„Frammistaðan datt niður á móti bæði Napoli og Rauðu stjörnunni. Þessir leikir voru báðir í Meistaradeildinni og báðir á útivelli. Við þurfum að hugsa aðeins út í það fyrir næsta leik okkar í Meistaradeildinni,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×