Erlent

Ráðherrar Bandaríkjanna kalla eftir vopnahléi í Jemen

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AP/Roman Vondrous
Þeir Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og Mike Pompeo utanríkisráðherra hafa báðir krafist þess að komið verði á vopnahléi í Jemen hið snarasta. Mattis segir að Bandaríkjamenn vilji fá stríðandi fylkingar að samningaborðinu og að öllum loftárásum verði hætt innan þrjátíu daga.

Pompeo sendi einnig frá sér yfirlýsingu á svipuðum tíma þar sem segir að samningaviðræðum undir stjórn Sameinuðu þjóðanna verði fram haldið í næsta mánuði. Gríðarlegar hörmungar hafa gengið yfir íbúa landsins sökum borgarastríðsins þar í landi og ein mesta hungursneyð sögunnar er sögð vofa yfir, verði ekkert að gert.

Mattis sagði í yfirlýsingu að nauðsynlegt sé að leita friðar í Jemen. Hann sagðist viss um að Sádí-Arabía og Sameinuðu furstaveldin væru tilbúin til viðræðna.

Þrýstingur eykst einnig á Donald Trump forseta að hann láti af stuðningi sínum við Sádí Araba sem aftur styðja stjórnvöld í Jemen gegn uppreisnarmönnum Húta, sem aftur eru studdir af Íran.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×