Erlent

Ofbeldi einkennir þingkosningar í Afganistan

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Afganir ganga í dag til þingkosninga.
Afganir ganga í dag til þingkosninga. Vísir/AP
Mikið hefur verið um ofbeldi í Afganistan í dag, en íbúar landsins ganga að kjörborðinu í dag og kjósa til þings. Tugir hafa látið lífið í sprengjuárásum á kjörstaði víðs vegar um landið. Búið er að framlengja kosningartímann og munu þónokkrir kjörstaðir standa opnir fram á sunnudag.

Varnarmálaráðuneyti Afganistan hefur sent af stað 70.000 meðlimi öryggissveita landsins til þess að reyna að tryggja að kosningarnar geti farið sem friðsamlegast fram.

Ófremdarástandið í landinu þarf þó ekki að koma á óvart en töluvert hefur verið um ofbeldishótanir og voðaverk í aðdraganda kosninganna. Tíu kvenkyns frambjóðendur til þings hafa verið myrtir í kosningabaráttunni, sem bæði afganskir Talíbanar og íslamska ríkið hafa heitið að raska sem mest.

Þá hafa tæknilegir örðugleikar einnig sett svip sinn á kosningarnar en Afganir notast í þessum kosningum í fyrsta sinn við rafrænt kosningakerfi, sem hefur reynst mörgum kjósendum erfitt að nota og hefur það valdið töfum á starfi kjörstaða. Úrslita kosninganna er ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi þann 10. nóvember, eða 20 dögum eftir að kosningunum lýkur.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×