Erlent

Trump segir að blekkingar og lygar hafi átt sér stað í tengslum við dauða Khashoggi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump er forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump er forseti Bandaríkjanna. AP/Jacquelyn Martin
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur gagnrýnt útskýringar Sádí-Araba á því hvernig blaðamaðurinn Jamal Khashoggi lést eftir að hafa í gær sagt að þær væru trúverðugar.

Í viðtali við Washington Post sem birtist á vefsíðu blaðsins í nótt að íslenskum tíma sagði Trump að „augljóslega hafa blekkingar átt sér stað, lygar hafa átt sér stað“ um skýringar Sádi-Araba.

Yfirvöld í Sádi-Arabaíu staðfestu andlát Khashoggi um helgina og sögðu hann hafa látist í áflogum inni á ræðismannaskrifstofu Sádi-Araba í Tyrklandi. Þarlend lögregluyfirvöld halda því þó fram að hann hafi verið myrtur og lík hans bútað í sundur. Hafa þau heitið því að komast til botns í málinu en tyrknesk yfirvöld eru sögð búa yfir hljóð- og myndupptökum sem varpi nánari ljósi á það hvað gerðist inni á skrifstofunni.

Skýringar Sádi-Araba hafa þótt ótrúverðugar og í gær gerði Angela Merkel þá kröfu um að yfirvöld í Sádi-Arabíu geri hreint fyrir sínum dyrum vegna málsins og virðist sem svo að Trump taki undir það í viðtalinu við Post.

Í gær sagði Trump við blaðamenn að hann teldi skýringar Sádí-Araba trúverðugar en í frétt Post segir að Trump hafi á sama tíma harmað það við ráðgjafa sína hversu náið samband er á milli Jared Kushner, tengdasonar Trump sem er einn hans nánasti ráðgjafi, og krónprinsins Mohammed bin Salman, sem stýrir Sádí-Arabíu, og hefur verið bendlaður við einhvers konar aðild að bana Khashoggi.

Í viðtalinu segir Trump að enn sem komið er hafi engin sýnt fram á það að bin Salman hafi haft eitthvað með dauða Khashoggi að gera og sagði Trump að Sádí-Arabía væri „frábær bandamaður“.

Sagði Trump að ekki kæmi til greina að hætta við risavaxinn vopnasölusamning Bandaríkjanna og Sádí-Araba vegna málsins en bætti þó við að „að eitthvað yrði gert“.


Tengdar fréttir

Merkel krefur Sádi Arabíu um nánari skýringar

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir útskýringar sádiarabískra stjórnvalda á andláti blaðamannsins Jamals Khashoggi vera ófullnægjandi. Hún gerir þá kröfu að yfirvöld í Sádí geri hreint fyrir sínum dyrum og upplýsi á nákvæmari hátt um hvernig andlát Khashoggi bar að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×