Viðskipti innlent

Stöðugildum fækkað um 50 og hagnaður dregist saman um milljarð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rekstrartekjur Landsbankans hafa dregist saman um hálfan milljarð á milli ára.
Rekstrartekjur Landsbankans hafa dregist saman um hálfan milljarð á milli ára. vísir/vilhelm
Afkoma Landsbankans var jákvæð um 15,4 milljarða króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 saman­borið við 16,8 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2017. Þá fækkaði stöðugildum hjá bankanum um 50 frá því á sama tíma fyrir ári. Þann 30. september síðastliðinn voru þau 948 talsins en voru 998 árinu áður.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í uppgjöri Landsbankans fyrir fyrstu 9 mánuði ársins.

Í uppgjörinu má jafnframt sjá að arðsemi eigin fjár bankans á umræddu tímabili var 8,8% á ársgrundvelli - samanborið við 9,4% á sama tímabili í fyrra. Þá eru rekstrartekjur bankans um 500 milljónum krónum lakari en á síðasta ári; voru 41,1 milljarður í ár en 41,6 milljarðar í fyrra, auk þess sem jákvæðar virðisbreytingar námu 1,6 milljarði króna á tímabilinu samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 2,1 milljarð króna á sama tímabili árið 2017.

Stöðugildum fækkar og launakostnaður hækkar

Að sama skapi lækkuðu aðrar rekstrartekjur um 36% á milli ára, voru 5,9 milljarðar fyrstu 9 mánuði síðasta árs en námu 3,8 milljörðum að loknum sama mánaðafjölda í ár. Fram kemur í uppgjörinu að óhagstæðar aðstæður á verðbréfamörkuðum séu helsta skýring lækkunarinnar.

Vanskilahlutfall bankans lækkaði þó um helming milli ára. Það var 0,5% í lok september 2018 miðað við 1,0% á sama tíma í fyrra. Rekstrarkostnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 nam 17,7 milljörðum króna og stóð í stað á milli tímabila. Þar af var launakostnaður 10,8 milljarðar króna samanborið við 10,3 milljarða króna á sama tímabili árið 2017, sem er hækkun um 4,3%. 

Þessi aukni launakostnaður á sér stað þrátt fyrir að stöðugildum hafi fækkað um 5 prósent á milli ára. Stöðugildi hjá Landsbankanum þann 30. september 2018 voru 948 en voru 998 á sama tíma fyrir ári. 

Nánar má fræðast um uppgjörið með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Unnt að nota símann sem greiðslukort

Landsbankinn verður fyrsti bankinn á Íslandi og þriðja fjármálafyrirtækið í Evrópu til að innleiða nýja greiðslulausn VISA sem felur í sér að hægt verður að greiða fyrir vörur og þjónustu með símanum einum og sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×