Erlent

Schyman hættir sem leiðtogi Feminísks frumkvæðis

Atli Ísleifsson skrifar
Bandaríska leikkonan Jane Fonda og Gudrun Schyman árið 2006.
Bandaríska leikkonan Jane Fonda og Gudrun Schyman árið 2006. EPA/LEIF R JANSSON
Gudrun Schyman hyggst ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður sænska stjórnmálaflokksins Feminísks frumkvæðis (Feministiskt initiativ).

Frá þessu greinir Dagens Nyheter í kvöld. Flokkurinn missti mikið fylgi í þingkosningunum í Svíþjóð í haust og hlaut einungis 0,45 prósent atkvæða.

Schyman segir að strax eftir kosningarnar hafi hún hugsað að hún gæti ekki látið af embætti þá þegar allir voru niðurlútir. Slíkt hefði verið eins og að yfirgefa sökkvandi skip.

Schyman hefur verið virk í starfi flokksins allt frá því að flokkurinn var stofnaður árið 2005. Hún hefur gegnt formannsembætti í flokknum í ellefu ár, en nú deilir hún embættinu með Gita Nabavi.

Náði konu inn á Evrópuþingið

Feminískt frumkvæði hefur boðið fram til þings í Svíþjóð frá árinu 2006 og var nálægt því að ná mönnum inn á þing árið 2014. Þá fékk flokkurinn 3,12 prósent fylgi. Í kosningum til Evrópuþingsins sama ár fékk flokkurinn hins vegar 5,40 prósent atkvæða og náði manni inn á þingið, Soraya Post.

Schyman á að baki langan feril í sænskum stjórnmálum og var formaður Vinstriflokksins á árunum 1993 til 2003. Hún sat á þingi á árunum 1988 til 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×