Erlent

Sænski þingforsetinn sér fjóra möguleika í stöðunni

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmanna og starfandi forsætisráðherra, gekk í morgun á fund þingforsetans Andreas Norlén (á myndinni) þar sem hann greindi frá því að hann hafi siglt í strand í stjórnarmyndunarviðræðunum.
Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmanna og starfandi forsætisráðherra, gekk í morgun á fund þingforsetans Andreas Norlén (á myndinni) þar sem hann greindi frá því að hann hafi siglt í strand í stjórnarmyndunarviðræðunum. Getty
Forseti sænska þingsins, Andreas Norlén, segir að hann muni ekki veita neinum umboð til stjórnarmyndunar í bili. Norlén hefur þess í stað boðað leiðtoga til hópviðræðna út frá fjórum tillögum að nýrri ríkisstjórn.

Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmanna og starfandi forsætisráðherra, gekk í morgun á fund þingforseta þar sem hann greindi frá því að hann hafi siglt í strand og sjái sem stendur ekki fram á að geta myndað nýja stjórn sem meirihluti þingsins myndi verja vantrausti. Áður hafði Ulf Kristersson, formaður hægriflokksins Moderaterna, einnig mistekist að mynda nýja stjórn.

Fjórar tillögur

Þingforsetinn ræddi við leiðtoga allra flokka á þingi í dag og greindi frá næstu skrefum á fréttamannafundi nú síðdegis. Hann sagði að sem stendur væri ekki tímabært að veita neinum sérstakt umboð til stjórnarmyndunar. „Þess í stað vil ég taka að mér virkara hlutverk.“

Tillögurnar sem Norlén nefndi voru:

  • Þjóðstjórn með Jafnaðarmönnum, Græningjum og borgaralegu flokkunum.
  • Miðjustjórn með Jafnaðarmönnum, Græningjum, Miðflokknum og Frjálslyndum.
  • Ríkisstjórn borgaralegu flokkanna og Græningja.
  • Borgaraleg ríkisstjórn í einhverri mynd sem Kristersson hefur nefnt.


Fyrstu fundirnir eru fyrirhugaðir þegar á morgun.

Afar snúin staða er á sænska þinginu eftir kosningarnar sem fram fóru 9. september síðastliðinn. Rauðgrænu flokkarnir náðu 144 þingsætum, borgaralegu flokkarnir 143 og Svíþjóðardemókratar 62.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×