Körfubolti

Brynjar: Þurfum að láta dómarana vera

Árni Jóhannsson skrifar
Brynjar fór í herbúðir Tindastóls í sumar
Brynjar fór í herbúðir Tindastóls í sumar vísir/bára
Tindastóll hafði betur gegn Val í Domino's deild karla í körfubolta í kvöld. Bikarmeistararnir unnu leikinn með 20 stigum, 73-93.

„Í fyrsta lagi þá þurftum við að láta dómarana vera, við vorum fullmikið að pirra okkur á hlutum sem við stjórnum ekki“, sagði Brynjar Þór Björnsson leikmaður Tindastóls um hvað hafi verið talað um í hálfleik í búningsklefanum sem varð til þess að Tindastóll valtaði yfir Val í seinni hálfleik.

„Ég sjálfur og fleiri vorum að einblína á mistökin sem við vorum að gera og það er oft þannig að ef það koma neikvæðar hugsanir þá gerast neikvæðir hlutir. Við byrjuðum frekar rólega en þegar leið á þá fannst mér boltahreyfingin koma og við fundum opnu skotin og þegar það gerist þá gerast hlutirnir. Mér fannst að varnarleikurinn hafa verið svo mjög flottur“.

Brynjar var spurður að því hvernig honum liði í hinum vínrauða búning en liðið er mjög vel mannað og því ætti að vera þægilegt að komast inn í hlutina.

„Það er mjög gaman og það eru frábærir erlendir leikmenn þarna og svo frábærir íslenskir leikmenn líka. Þeir vilja vinna og vilja gera þetta saman og eins og ég sagði einhversstaðar þá er enginn hálfviti í þessu liði. Boltahreyfingin er til staðar og varnarlega erum við að vinna saman og þegar hlutirnir eru þannig þá gerast góðir hlutir. Ég tel okkur eiga framtíðina fyrir okkur á þessu ári“.

Að lokum var Brynjar spurður útí í hvar hann teldi liðið vera statt á þessum tímapunkti

„Það er engin spurning að það er nóg eftir í að við verðum fullmótað lið. Við eigum eftir að spila á móti Stjörnunni, Keflavík og Njarðvík og með fullri virðingu fyrir Val og Þór Þorlákshöfn þá er þeim spáð 9. og 10. sæti og eigum við að vinna þessi lið. Við eigum Hauka næst og eigum við að vinna þá líka. Svo spilum við við Njarðvík og það er fyrsta stóra prófið hjá okkur. Njarðvík er með frábæra leikmenn og góðan strúktúr og breiðan hóp þannig að ég er mjög spenntur fyrir framtíðinni og hlakka til að upplifa körfuboltaveturinn á Króknum“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×