Körfubolti

Körfuboltakvöld um Bjarna: „Þetta er bara grjótharður fjósastrákur“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
S2 Sport
Nýliðar Skallagríms unnu sterkan sigur á Grindavík í annari umferð Domino's deildar karla. Sérfræðingar Domino's Körfuboltakvölds hrifust af ungu leikmönnum liðsins.

Eyjólfur Ásberg Halldórsson, tvítugur bakvörður, var maður leiksins með 23 stig og 78 prósenta skotnýtingu.

„Virkilega flottur þessi gaur og virðist vera kominn á einhvern stall þar sem hann getur tekið af skarið. Hann er að gera meira núna heldur en í fyrra,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson um Eyjólf og hélt áfram:

„Hann var frábær. Bjarni Guðmann [Jónsson] var frábær í þessum leik. Með góðan útlending með sér, þetta er bakbeinið í liðinu. Ef að þú ert með það í lagi og þeir eru að spila svona vel, þá lítur þetta svona út.“

Bjarni Guðmann skilaði 14 stigum í leiknum, var með 23 framlagspunkta eftir níu fráköst og 4 stoðsendingar. Kjartan Atli Kjartansson líkti Bjarna við landsliðsfyrirliðann Hlyn Bæringsson, grannvöxnum en með mikinn styrk.

„Hann getur spilað frá einum upp í fimm í vörn,“ tók Kristinn Geir Friðriksson undir. „Þetta er bara grjótharður fjósastrákur.“

Þá lofuðu sérfræðingarnir bandaríska leikmanninn Aundre Jackson og sögðu ekki koma á óvart ef hann stæði uppi sem einn besti leikmaður deildarinnar í vor.

Umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×