Félag Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur fjárfestis skilaði ríflega 464 milljóna króna hagnaði í fyrra, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins, K2B fjárfestinga ehf. Til samanburðar hagnaðist félagið um rúmar 25 milljónir króna árið 2016.
Eignir félagsins námu tæplega 4,3 milljörðum króna í lok síðasta árs en á sama tíma var bókfært eigið fé þess tæpir 3,9 milljarðar króna. Langtímaskuldir K2B fjárfestinga voru rúmlega 411 milljónir króna í lok ársins og skammtímaskuldir um 31 milljón.
Félagið er meðal annars í hópi stærstu hluthafa í tryggingafélaginu VÍS, Kviku banka og Kortaþjónustunni. Svanhildur Nanna situr í stjórn VÍS en eiginmaður hennar, Guðmundur Örn Þórðarson, er hins vegar varaformaður stjórnar Kviku.
Eins og kunnugt er tók héraðssaksóknari til skoðunar í sumar kaup hjónanna, ásamt öðrum fjárfestum, á hlutum í Skeljungi árið 2008 og færeyska olíufélaginu P/F Magn árið 2009.
Viðskipti innlent