Sport

Sjáðu einlægan fögnuð nýja íslenska Ólympíumeistarans

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðbjörg Jóna var eðlilega kampakát.
Guðbjörg Jóna var eðlilega kampakát. mynd/skjáskot
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, spretthlaupari úr ÍR, varð í gærkvöldi Ólympíumeistari ungmenna í 200 metra hlaupi en árið 2018 hefur heldur betur verið gott fyrir þessa 16 ára gömlu frjálsíþróttakonu.

Til viðbótar við Ólympíumeistaratitilinn vann hún gull á Evrópumótinu í flokki 16-17 ára í 100 metra hlaupi sem er ekki hennar sterkasta grein og þá varð hún Íslandsmeistari í 200 metra hlaupi.

Guðjbörg Jóna bætti Íslandsmetið í 200 metra hlaupi í báðum úrslitahlaupunum á Ólympíuleikum ungmenna í Argentínu en hlaupið var eftir nýstárlegu fyrirkomulagi þar sem að samanlagður árangur í tveimur hlaupum gilti til sigurs á mótinu.

ÍR-ingurinn kom önnur í mark í seinna hlaupinu á 23,47 sekúndum og bætti Íslandsmetið úr fyrri umferðinni þar sem að hún kom í mark á 23,55 sekúndum.

Fögnuður Guðbjargar var heldur betur einlægur en eftir að spjalla aðeins við sitt fólk upp í stúku horfði hún beint í myndavélina umvafin íslenska fánanum og öskraði: „Jáááá!“

Lokametrana í hlaupinu og fögnuð Guðbjargar Jónu má sjá í myndbandinu hér að neðan en hún byrjar eftir 53 sekúndur.


Tengdar fréttir

Frábært ár varð stórkostlegt

Ísland eignaðist Ólympíumeistara í gærkvöldi þegar Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir vann til gullverðlauna í 200 metra hlaupi á Ólympíuleikum ungmenna í Buenos Aires. Hún bætti einnig Íslandsmet sitt í greininni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×