Erlent

Þjóðverjar framselja grunaðan banamann Marinovu

Atli Ísleifsson skrifar
Viktoria Marinova starfaði í sjónvarpi í umræðuþætti sem hafði hafði nýverið fjallað um spillingarmál.
Viktoria Marinova starfaði í sjónvarpi í umræðuþætti sem hafði hafði nýverið fjallað um spillingarmál. AP/Filip Dvorski
Tvítugur karlmaður sem grunaður er um að hafa nauðgað og myrt búlgarska fréttakonu fyrr í mánuðinum hefur verið framseldur frá Þýskalandi til Búlgaríu.

Hin þrítuga Viktoria Marinova fannst látin á göngustíg við bakka ár í borginni Ruse í norðurhluta Búlgaríu þann 6. október síðastliðinn. Þremur sólarhringum síðar var svo hinn tvítugi Severin Krasimirov handtekinn í þýska bænum Stade, nálægt Hamborg, eftir að gefin var út evrópsk handtökuskipun á hendur honum.

Skömmu eftir morðið var rætt um að morðið kynni að tengjast störfum Marinovu sem fréttakonu en saksóknarar Í Búlgaríu segja engar vísbendingar vera um slíkt.

Maðurinn neitar að hafa nauðgað Marinovu en viðurkennir að hafa slegið hana í höfuðið og síðar kastað henni inn í runna.  Hann sagði fyrir dómara í Þýskalandi að hann hafði ekki haft í hyggju að drepa konuna.

Sotir Tsatsarov, ríkissaksóknari í Búlgaríu, segir í samtali við þarlenda fjölmiðla að nægar sannanir séu fyrir hendi til að sakfella manninn.


Tengdar fréttir

Þrítugri blaðakonu nauðgað og hún myrt í Búlgaríu

Þrítugri búlgarskri rannsóknarblaðakonu var nauðgað og hún myrt í gær í borginni Ruse í Búlgaíu. Hún hafði verið að rannsaka spillingarmál innan búlgarska stjórnkerfisins. Politico greinir frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×