Erlent

Arnault dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Atli Ísleifsson skrifar
Jean-Claude Arnault hefur verið áberandi í sænsku menningarlífi síðustu árin.
Jean-Claude Arnault hefur verið áberandi í sænsku menningarlífi síðustu árin. Vísir/EPA
Dómstóll í Stokkhólmi í Svíþjóð dæmdi í morgun hinn 72 ára Jean-Claude Arnault í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun árið 2011.

Arnault hefur verið þekktur sem Kulturprofilen í Svíþjóð og hefur mál hans teygt anga sína inn í Sænsku Akademíuna og leitt til afsagnar sjö meðlima hennar síðan í apríl.

Arnault var einnig dæmdur til að greiða konunni 115 þúsund sænskar krónur í miskabætur, um 1,5 milljón íslenskra króna. Arnault skal haldið í gæsluvarðhaldi þar til að afplánun hefst.

Tvö tilvik

Í ákæru var Arnault sakaður um að hafa nauðgað konu í tvígang, fyrst haustið 2011 og svo aftur um vetur sama ár. Hann var sakfelldur fyrir annað tilvikið. Saksóknari hafði farið fram á þriggja ára fangelsi.

Arnault neitaði sök í málinu og var úrskurðaður í gæsluvarðhald í síðustu viku þar sem talið var að hann gæti flúið land áður en dómur myndi féll.

Giftur fyrrverandi miðlimi Akademíunnar

Grunsemdir um brot Arnault rötuðu fyrst í fjölmiðla í nóvember á síðasta ári í kjölfar rannsóknar Dagens Nyheter þar sem átján konur greindu frá því að hafa verið áreittar eða nauðgað af honum.

Arnault er giftur fyrrverandi meðlimi Sænsku Akademíunnar og hefur sjálfur verið áberandi í sænsku menningarlífi síðustu ár. Mál Arnault varð til þess að í maí síðastliðinn var greint frá því að bókmenntaverðlaun Nóbels yrðu ekki afhent í ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×