Innlent

Kallaðar út vegna slasaðs göngumanns á Kirkjufelli

Atli Ísleifsson skrifar
Kirkjufellið stendur við Grundarfjörð á Snæfellsnesi.
Kirkjufellið stendur við Grundarfjörð á Snæfellsnesi. Vísir/Vilhelm
Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út vegna slasaðs göngumanns á Kirkjufelli við Grundarfjörð á Snæfellsnesi.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, staðfestir þetta í samtali við Vísi.

Hann segir ekki miklar upplýsingar liggja fyrir að svo stöddu, en að björgunarsveitir í Grundarfirði, annars staðar á Snæfellsnesi og einnig á höfuðborgarsvæðinu séu á leið á vettvang.

Banaslys varð í hlíðum Kirkjufells í Grundarfirði um miðjan síðasta mánuð þegar erlendur ferðamaður, sem hafði orðið viðskila við félaga sinn, féll fram af klettum.

RÚV  hefur eftir lögreglunni á Vesturlandi að um sé að ræða konu, líklega frá Frakklandi. Hún hafi sjálf kallað á aðstoð, en að ekki sé vitað um hvort að hún sé alvarlega slösuð.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF GNÁ, hefur verið kölluð út og voru fimm sérhæfðir fjallabjörgunarmenn meðferðis.

Uppfært 19:35:

Björgunarsveitir eru komnir að konunni og eru nú leiða leitað til að koma henni niður úr fjallinu. Þetta segir Einar Strand, formaður svæðisstjórnar Landsbjargar á Snæfellsnesi, í samtali við Vísi. Slæmt veður er á staðnum. Hann segir konuna hafa slasast vestan megin við hrygginn á fjallinu, ekki á ósvipuðum slóðum og banaslysið varð í síðasta mánuði.

Uppfært 20:10:

Samkvæmt heimildum Vísis er konan komin um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×