Erlent

Góður dagur hjá Theresu May

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
May dansaði inn á sviðið við lag ABBA, Dancing Queen.
May dansaði inn á sviðið við lag ABBA, Dancing Queen. Nordicphotos/AFP
Bretland Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, þykir hafa átt góðan dag í gær eftir erfiðleika undanfarinna mánaða. May hélt ræðu sína á lokadegi landsfundar breska Íhaldsflokksins sem fram fór í Birmingham. Bjartsýnis- og vonartónn var í ræðunni og hvatti hún flokkinn til þess að standa þétt saman.

Forsætisráðherrann sagði að Íhaldsflokkurinn þyrfti að vera flokkur allra. Nú, áratug eftir kreppu, væru betri tímar fram undan. Nefndi hún til dæmis að eldsneytisskattar yrðu ekki hækkaðir, að niðurskurðaraðgerðum yrði alfarið hætt og að lánaþak sveitarfélaga yrði afnumið svo hægt væri að ráðast í byggingu fleiri íbúða.

En útgangan úr Evrópusambandinu var það sem flestir höfðu áhuga á. May varði stefnu sína í útgöngumálum, svokallaða Chequers-stefnu sem gengur meðal annars út á að Bretar fái áfram aðild að tollabandalagi ESB og innri markaðnum að hluta en fái samt sem áður að gera sína eigin fríverslunarsamninga.

Stefnan er afar umdeild. Forseti leiðtogaráðs ESB sagði hana einfaldlega ekki ganga upp. Vegna þess hversu langt er í land í samningaviðræðum um framtíðarsamband ESB og Bretlands er óttast að enginn samningur náist. Brexitmálaráðherrann David Davis og utanríkisráðherrann Boris Johnson sögðu af sér vegna stefnunnar og þingmenn hafa gagnrýnt stefnuna mjög. Sagt hana svik við kjósendur sem kusu að yfirgefa ESB.

Orðið „Chequers“ var þó hvergi að finna í ræðu May. Ráðherrann sagði að fríverslun væri leiðarstef stefnunnar og varaði við því að ef þingmenn hættu ekki að krefjast sinnar „eigin fullkomnu sýnar á Brexit“ gæti það leitt til þess að ekkert yrði af útgöngunni.

Ræðu May var almennt vel tekið. Matt Hancock heilbrigðismálaráðherra sagði ræðuna stórkostlega, May hefði sýnt að hún byggi yfir miklum persónutöfrum. Viðmælendur BBC á fundinum voru almennt á sömu línu. „Þetta var besta ræða sem Theresa May hefur flutt. Hún setti fram frábær stefnumál og sýndi að flokkurinn er sameinaður,“ sagði einn fundargesta.

Sameinaður er lykilorð í þessu samhengi. Allt frá því May setti fram svokallaða Chequers-áætlun í Brexitmálinu hefur allt logað í deilum innan flokksins.

Boris Johnson hélt sömuleiðis ræðu á landsfundinum. Auk þess að skjóta á Verkamannaflokkinn og lofa Thatcher sagði hann að Chequers-áætlunin væri mistök. „Hún er ekki raunhæf. Hún er ekki málamiðlun. Hún er hættuleg, jafnt pólitískt sem efnahagslega. Þetta er ekki það sem Bretar greiddu atkvæði með,“ sagði Johnson.

Stjórnmálaskýrandi The Sun sagði svo í gær að einn þingmanna flokksins hefði bent honum á að Iain Duncan Smith, fyrrverandi leiðtogi flokksins, hafi fengið mikið lófaklapp og lof fyrir landsfundarræðu sína árið 2003. Honum hafi engu að síður verið sparkað þremur vikum seinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×