Körfubolti

Finnur: Fannst við vera yfir í hálfleik en leit á töfluna og við vorum undir

Árni Jóhannsson skrifar
Finnur er alltaf hress.
Finnur er alltaf hress. vísir/ernir
„Við komum svolítið flatir út í seinni hálfleikinn og náðum ekki að stoppa, tókum vondar ákvarðanir í sóknarleiknum hjá okkur og dass af heppni hjá þeim", sagði Finnur Jónsson þjálfari Skallagríms eftir tap  gegn KR í Dominos-deildinni í kvöld.

„Þeir náttúrlega skjóta eins og tittlingar og eru með tæplega 70% nýtingu í þriggja stiga skotum. Ég hef bara ekki séð annað eins. Ég veit ekki hvað Ingi hefur gefið þeim að éta í morgun,” sagði Finnur furðu lostinn.

Hann var því næst spurður að því hvort að eitthvað jákvætt væri að finna í þessum leik en sóknarleikur liðsins var á köflum stórfínn.

„Já fullt af jákvæðum hlutum sem hægt er að tína til að sjálfsögðu. Liðið er stútfullt af sjálfstrausti. Við byrjum vel og sóknarleikurinn góður á löngum köflum en við getum vissulega gert betur varnarlega enda fengum við á okkur 109 stig.”

„Við erum nýliðar og þeir fimmfaldir meistarar þannig að það fellur sumt með þeim og annað ekki með okkur en mér fannst þetta ekki vera 16 stiga leikur.”

„Ég er svo blindur og ruglaður á þetta enda fannst mér við vera yfir í hálfleik en þegar ég leit á töfluna þá vorum við undir og fannst mér það ekki eiga að vera þannig miðað við hvernig leikurinn þróaðist.“

Finn líst mjög vel á veturinn sem er framundan og hópinn sem hann er með í höndunum.

„Mér líst sjúklega vel á þennan vetur. Ég er með meiriháttar hóp hérna, meðalaldurinn er 22 ára. Við erum ungir og graðir og viljum spila, berjast og djöflast og við notum leikinn í kvöld til að vera betri. Við erum byrjaðir að hugsa um næsta leik á móti Grindavík heima.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×