Körfubolti

Borche: Reyndi að koma og taka í höndina á honum en hann vildi það ekki

Böðvar Sigurbjörnsson skrifar
Borche gefur skipanir til sinna manna í kvöld.
Borche gefur skipanir til sinna manna í kvöld. vísir/bára
Það var mikill hiti í Garðabæ í kvöld er Stjarnan vann góðan sigur ÍR í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar. Þjálfararnir tókust ekki í hendur í leikslok.

„Við fengum sennilega okkar besta hálfleik hingað til í fyrri hálfleik ef við teljum með undirbúningstímabilið en síðan fengum við slæman seinni hálfleik,” sagði Borche Iievski, þjálfari ÍR, í leikslok.

„Við fengum Gerald til okkar bara fyrir tveimur dögum síðan og hann á eftir að aðlagast leik okkar betur. Við erum því ekki komnir nægilega langt í okkar undirbúningnum en við eigum eftir að vinna í þessum hlutum og verðum betri þegar líður á.“

 

Spurður út í ummæli þjálfara Stjörnunnar hafði Borche þetta að segja.

„Ég veit ekki hvað hann sagði en á undirbúningstímabilinu ákvað ég að spila lokaðan æfingaleik sem hann var mættur til að horfa á, ég ákvað að þetta yrði lokaður leikur. Ástæða þess er sú að ég gat ekki fengið neinar upplýsingar um Stjörnuna og þeirra leik á undirbúningstímabilinu.”

„Ég reyndi að fá upptökur af þeirra leik frá því að þeir spiluðuð á Glacial mótinu en engin vildi láta mig hafa upptökur frá þeirra leikjum. Ég hafði því engar upplýsingar til að vinna úr, á sama tíma hafði Arnar komið tvisvar áður á okkar heimavöll til að horfa á okkur spila auk þess sem ég veit að hann fékk upptökur frá öðrum leikjum okkar á undirbúningstímabilinu.”

„Þetta er bara spurning um það að ef þú ert ekki tilbúinn til að deila upplýsingum með öðrum þá getur þú ekki vænst þess að fá upplýsingar á móti, þetta er ekkert annað en það. Ég reyndi að koma til hans að leik loknum og taka í hönd hans en hann vildi það ekki og þannig endaði það,” sagði Borche Iievski þjálfari ÍR að leik loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×