Körfubolti

Jón Arnór spilaði með KR liðinu í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Hanna
Jón Arnór Stefánsson spilaði sinn fyrsta leik síðan í vor þegar KR-ingar léku æfingaleik í gærkvöldi á móti Alicante í æfingaferð sinn á Spáni.´

Jón Arnór gat ekki spilað með íslenska landsliðnu í sumar vegna meiðsla og var heldur ekki með á móti Portúgal um síðustu helgi.

„Jón Arnór lék sinn fyrsta leik síðan í vor og eru það jákvæðar fréttir,“ segir í frétt um leikinn á fésbókarsíðu KR.

Það er hægt að taka undir þetta en síðasti leikur hans var einmitt þegar KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn fimmtá árið í röð.

Jón Arnór fór með í æfingaferðina til Valencia á Spáni og er nú aftur kominn inn á völlinn. Hann ætti því að vera klár í slaginn þegar Domino´s deildin fer af stað á ný.

KR tapaði leiknum í gær á endanum 75-88 en Alicante eitt af sterkari liðum Leb Silver deildarinnar sem er C-deildin á Spáni.

Nýju leikmennirnir voru stighæstir hjá KR í þessum leik. Dino Stipcic skoraði 24 stig, Julian Boyd var með 13 stig og Emil Barja skoraði 12 stig. Jón Arnór Stefánsson náði ekki að skora.

 

Á morgun spilar KR-liðið gegn liði sem gengur undir nafninu Europrobasket en þar eru á ferðinni bandarískir leikmenn sem eru að leita sér að liðum hérna á Spáni. „Yngri mennirnir okkar verða í sviðsljósinu,“ segir í fréttinni hjá KR.

Stigaskor KR í leiknum: Dino Stipcic 24 stig, Julian Boyd 13, Emil Barja 12, Sigurður Þorvaldsson 10, Vilhjálmur Kári Jensson 9, Björn Kristjánsson 5, Orri Hilmarsson 2, Jón Arnór Stefánsson, Andrés Ísak Hlynsson afmælisdrengur, Ólafur Þorri Sigurjónsson, Þórir Lárusson, Benedikt Lárusson, Tristan Gregers, Alfonso Gomez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×