Ein helsta niðurstaða greinarinnar er að útstreymið geti verið á stærðarbilinu 10 til 20 þúsund tonn á dag sem setur Kötlu í flokk með þeim eldfjöllum í heiminum þar sem útstreymi koldíoxíðs er mest.
Magnús Tumi segir í grein sinni að í fjölmiðlaumræðu um þessa niðurstöðu hafi gætt nokkurs misskilnings um þýðingu rannsóknarinnar. Hann segir að hvergi sé komið inn á í niðurstöðunni hvort hún gefi til kynna hvort gos sé í aðsigi eða hversu stórt næsta gos verður.

Hann segir þessar merkilegu mælingar sýna að enn sé margt ólært þegar kemur að eldvirkni og eiginleika einstakra eldstöðva.
„Eins og höfundar greinarinnar benda á kalla niðurstöðurnar á að fram fari mun ítarlegri mælingar. Það er til dæmis mikilvægt að vita hvort útstreymið er stöðugt eða árstíðabundið. Hugsanlega munu frekari mælingar varpa nýju ljósi á hegðun Kötlu og gætu þannig hjálpað okkur við að bæta enn frekar eftirlit og hættumat. Meiri mælingar eru líka eina leiðin til að fá áreiðanlegra mat á heildarlosun eldstöðvarinnar. Í framhaldinu þarf að meta hvað tölurnar segja okkur um kvikuna undir Kötlu og hvaða lærdóma má draga af þeim.“