Viðskipti erlent

Tíu ár frá komu Android-síma á markað

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Eintak af Google Pixel 2.
Eintak af Google Pixel 2. Getty/Spencer Platt
Nú í september er liðinn áratugur frá því HTC T-Mobile G1, betur þekktur sem HTC Dream, kom á markað. Þessi frumstæði snjallsími var sá fyrsti sem studdist við Android, stýrikerfi Google fyrir snjalltæki, og markaði tímamót í tæknisögunni. Fréttablaðið leit yfir sögu Android og hvað framtíðin gæti borið í skauti sér.

Árið var 2008. Snjallsími Apple, iPhone, hafði verið á markaði í rúmt ár en flestir notuðu enn takkasíma. HTC Dream var frábrugðinn þeim snjallsímum sem við þekkjum í dag. Hann var lítill, var með fimm tökkum framan á, nokkurs konar mús og svo útdraganlegu lyklaborði. Gagnrýnendur tóku honum almennt illa en þrátt fyrir það seldist hann í rúmri milljón eintaka á fyrstu mánuðunum.

Stýrikerfið var nærri óþekkjanlegt miðað við það sem við þekkjum í dag. Það var einfalt og hægvirkt, enda á síma sem bjó aðeins yfir litlu brotabroti af því afli sem símar dagsins í dag hafa að geyma. Hins vegar bjó það yfir hinu mikilvæga forriti Android Market, nú þekktu sem Google Play Store. Með alla app-möguleika þess og sölutölurnar í huga sáu aðrir símaframleiðendur sér leik á borði.

Motorola gaf út Droid, Samsung gaf út Moment og síðar Galaxy-línuna og fyrirtæki á borð við Dell og LG slógust í hópinn.

Microsoft ætlaði hins vegar ekki að sitja eftir. Bandaríski risinn gaf út Windows Mobile og var HTC einnig fyrsta fyrirtækið sem framleiddi slíkan síma. Síðar átti Microsoft eftir að fara í samstarf við og svo gleypa Nokia, sem fór reyndar illa út úr ævintýrinu og framleiðir nú Android-síma. Einfalda ástæðan fyrir því að Microsoft mistókst ætlunarverk sitt er sú að fyrirtækið lenti einfaldlega í vítahring. Google neitaði að aðlaga öpp á borð við YouTube og Gmail að stýrikerfinu og önnur fyrirtæki nenntu ekki að þróa öpp fyrir stýrikerfið vegna lítils notendahóps. Það leiddi til þess að neytendur vildu símana ekki og svo hring eftir hring.



Motorola Moto 360 snjallúr.Getty/Justin Chin
Vinsældir Android fóru hins vegar vaxandi og tæpum fjórum árum eftir útgáfu stýrikerfisins fór það fram úr iOS, stýrikerfi Apple, og Symbian OS, sem símar til dæmis Nokia og Sony Ericsson keyrðu á, og varð það stærsta á símamarkaði. Þeirri stöðu hefur Android haldið síðan og hefur bilið bara breikkað. Markaðshlutdeild Android nú, samkvæmt GlobalStats, er 77 prósent. iOS hefur 20,5 prósent. Android varð sömuleiðis vinsælasta stýrikerfi heims, sé horft til bæði tölva og snjalltækja, á síðasta ári og hefur haldið þeirri stöðu síðan.

Stór hluti af þessum vexti Android­ hefur verið í til dæmis Kína og Indlandi. Þar áttu fæstir snjallsíma. Fjölbreytt framboð Android-síma, sem fá má á mun lægra verði en iPhone, hefur leitt til þess að Google hefur eignað sér Austurlönd.

Google hefur lengi framleitt eigin síma. Fyrst Nexus-línuna í samstarfi við HTC, svo Samsung, LG, Motorola, Huawei og loks LG á ný. En árið 2013 hóf Google útgáfu Pixel-símanna undir eigin vörumerki. Allir þessir símar eru hugsaðir til þess að sýna hreina útgáfu Android, öfugt við þær útgáfur sem finnast í flestum öðrum símum en algengast er að framleiðendur á borð við Samsung taki sinn snúning á stýrikerfinu.

En það er trúlega vöxtur Android út fyrir ferhyrndan ramma símans sem geymir bestar vísbendingar um framtíðina. Á undanförnum misserum hefur Google aðlagað Android ekki bara snjallúrum og spjaldtölvum heldur líka leikjatölvum, netbeinum, prenturum, vekjaraklukkum, kaffivélum, ísskápum og jafnvel speglum.

„Internet hlutanna“ eða „snjallheimilið“ eru frasar sem hafa skotið upp kollinum á síðustu árum og ganga meðal annars út á að hægt sé að tengja allt heimilið við símann í gegnum ýmist Bluetooth eða þráðlausa nettengingu.

Þá er einnig vert að taka fram tilvist Fuschia, dularfulls verkefnis sem Google hefur unnið að frá því að minnsta kosti í fyrra. Google hefur lýst Fuschia sem nýju stýrikerfi, hönnuðu fyrir tölvur og síma. Verkefnið er hugsað sem arftaki Android, raunar sameining Android og Chrome OS, stýrikerfisins sem Google hefur hannað fyrir einfaldar fartölvur.


Tengdar fréttir

Brýnt að uppfæra stýrikerfi þegar í stað

Alvarlegir öryggisgallar eru á nærri öllum framleiddum örgjörvum nútímans. Hægt er að stela upplýsingum með því að nýta sér gallann. Netöryggissveitin CERT-ÍS ráðleggur öllum að uppfæra stýrikerfi á tölvum sínum og snjallsímum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×