Ekki fengust svör við því fyrir hve mikið væri búið að selja og á hvaða vöxtum.
Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri Wow Air, tjáði fréttastofu Bloomberg í síðustu vku að útboðinu myndi ljúka öðru hvoru megin við helgina. Það hefur því dregist.
Hann sagði að útboðinu hefði verið tel tekið í Skandinavíu og í Lundúnum. Föstudaginn 31. ágúst sagði Skúli að erlendir fjárfestar hefðu þegar skráð sig til þess að kaupa „verulegan hluta skuldabréfaútboðsins.“
Viðbrögðin gæfu tilefni til að ætla að lágmarksmarkmiðið með útboðinu, að safna um 5,5 milljörðum króna, myndi nást. Það væri þó ekki í fullkomlega í hendi en á lokametrunum að sögn Skúla.
Skráning á markað í Frankfurt á dagskrá
Samkvæmt skilmálum skuldabréfaútboðsins, sem Vísir hefur undir höndum, gefur félagið út skuldabréf fyrir allt að 100 milljónir evra, jafnvirði 13 milljarða króna.Þá stefnir Wow Air á skráningu á hlutabréfamarkað í kauphöllinni í Frankfurt í Þýskalandi „eins fljótt og hægt er.“
Samkvæmt skilmálunum þarf Wow Air að standast ströng álagspróf vegna eiginfjár og lausafjár og þarf að bæta upplýsingagjöf til fjárfesta.
Skuldabréfin verða gefin út til þriggja ára og eru þau tryggð með veði í öllum hlutabréfum í Wow Air og dótturfélaga þess. Nafnverð hvers bréfs nemur 100.000 evrum, jafnvirði 13 milljóna króna og ber það 3 mánaða Euribor-vexti (-0,319 prósent) auk vaxtaálags sem áður hefur verið upplýst um að verði 9 prósent en er ekki tilgreint í skilmálunum sjálfum.
Vextir upp á 9 prósent þykir býsna gott eins og aðstæður eru núna að sögn sérfræðinga á fjármálamarkaði sem Vísir hefur rætt við. Eins og fram hefur komið er það norska verðbréfafyrirtækið Pareto Securities sem annast skuldabréfaútboðið fyrir Wow Air.