Körfubolti

Spurði hvort hann mætti vera með á æfingu og fékk samning

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
mynd/keflavík
Keflavík hefur samið við hinn litháenska Mantas Mockevicius um að spila með liðinu í Domino's deild karla í vetur. Mockevicius bankaði upp á í íþróttahúsinu og spurði hvort hann mætti vera með.

Keflvíkingar sendu frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem greint var frá komu nýs erlends leikmanns. Kynningin var þó ekki alveg hefðbundin því í henni var ansi skemmtileg saga.

„Hann mætti galvaskur í íþróttahúsið við Sunnubraut og spurði hvort hann gæti ekki fengið að vera með á æfingu, sem hann fékk. Það fór ekki á milli mála að drengurinn kunni körfubolta svo penninn var rifinn á loft og gerður var við hann samningur,“ sagði í tilkynningunni.

Mockevicius er fæddur árið 1993 og verður hann með Keflvíkingum í Pétursmótinu, æfingarmóti sem hefst á morgun.

Keflavík datt út í 8-liða úrslitum í fyrra. Þeir hefja nýtt keppnistímabil með grannaslag við Njarðvík í Ljónagryfjunni 5. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×