Erlent

Rýma hús vegna hættu á berghlaupi í Mannen

Atli Ísleifsson skrifar
Mannen er 1.294 metra hátt fjall í Romsdal.
Mannen er 1.294 metra hátt fjall í Romsdal. Vísir/epa
Norsk yfirvöld hafa hækkað hættustig vegna mögulegs berghlaups í fjallinu Veslemannen, eða Mannen, í Romsdal.

Hættustigið er nú talið „rautt“, sem þýðir að „mikil hætta“ sé á hlaupi, og hefur níu manns nálægum húsum verið gert að yfirgefa heimili sín.

Þetta er í sjöunda skipti á síðustu árum sem fólkið hefur verið beðið um að yfirgefa heimili sín. Það var síðast gert í ágúst síðastliðinn.

Ákveðið var að breyta hættustiginu í rautt eftir að jarðvísindamenn tóku eftir mikilli hreyfingu í fjallinu í nótt. Hreyfingarnar í nótt voru þær mestu sem mælst hafa í fjallinu, samkvæmt jarðfræðingnum Lene Kristensen. Ekki sé hægt að segja nákvæmlega hvenær von sé á berghlaupi en að ljóst sé að þessar miklu hreyfingar feli í sér mikla hættu.

Yfirvöld í Noregi reyndu án árangurs að framkalla berghlaup á síðasta ári með því að dæla vatni niður í sprungur í fjallinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×