Innlent

Stjórnvöld ættu að styðja rannsóknarblaðamenn beint

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins vísir/stefán
Formaður blaðamannafélagsins segir að stjórnvöld ættu að styrkja rannsóknarblaðamenn með beinum hætti, ekki bara fyrirtæki sem reka fjölmiðla. Hann fagnar því að stigið sé skref í þá átt að auðvelda rekstur einkarekinna fjölmiðla.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti í gær áforum um að verja um 400 milljónum króna á ári til þess að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi.

Þá eiga umsvif RÚV á auglýsingamarkaði að minnka og samræma gjaldtöku við kaup á auglýsingum svo íslenskir miðlar standi jafnfætis þeim erlendu.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, fagnar þessum áformum stjórnvalda. Hann segir þau skref í rétta átt, hins vegar þurfi að hafa í huga að tilgangurinn sé að styrkja blaðamenn og þeirra vinnu en ekki bara fjölmiðlasamsteypur.

„Við höfum lengi verið þeirrar skoðunar að setja ætti á laggirnar einhverskonar sjóð sem blaðamenn gætu sótt í, rannsóknarblaðamennskusjóð,“ segir Hjálmar.

„Við komum því á framfæri í athugasemdum við frumvarp um Ríkisútvarpið og fjölmiðlalögin á sínum tíma. Tæknin hefur gert það að verkum að maður þarf ekki að vera starfsmaður á fjölmiðli til að stunda rannsóknarblaðamennsku.“

„Þegar ég byrjaði í blaðamennsku þurfti ég að vinna á fjölmiðli til að verða blaðamaður en í dag er vettvangur til að birta þínar afurðir án þess að þú sért starfsmaður fjölmiðils. Þannig að ég held að það væri mjög af hinu góða, og vel til þess fallið að efla blaðamennsku á landinu, að setja á laggirnar blaðamennskusjóð,“ segir Hjálmar.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×