Innlent

Viðurkennir mistök en segist ekki vera dónakall

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarni Már Júlíusson var í gær rekinn frá Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur.
Bjarni Már Júlíusson var í gær rekinn frá Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur.
Bjarni Már Júlíusson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, segist mjög sleginn yfir þeirri atburðarás sem leitt hafi til starfsloka hans hjá fyrirtækinu. Stjórn Orku náttúrunnar ákvað á fundi sínum í gær að segja Bjarna Má upp störfum.

Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir að eitt tilvik, sem teldist til óviðeigandi hegðunar, hafi leitt til ákvöðrunar stjórnar ON að segja Bjarna Má upp störfum.

Eiginkona Einars Bárðarsonar umboðsmanns lauk störfum hjá Orku náttúrunnar á mánudag. Einar sendi Bjarna Bjarnasyni, forstjóra Orkuveitunnar, tölvupóst í framhaldinu. Í kjölfar upplýsinga í þeim pósti óskaði Bjarni Bjarnason eftir fundi með Einari sem fram fór í gærmorgun. 

Í framhaldinu fundaði stjórn Orku náttúrunnar eftir hádegi í gær, ákvað að segja Bjarna Má upp störfum og var honum tilkynnt uppsögnin í gærkvöldi.

Fréttin sem vakti kátínu hjá Bjarna Má og sendi í afdrifaríkum tölvupósti.

Viðurkennir að hafa gert mistök

Bjarni Már segist hafa gert mistök í samskiptum sínum við kvenundirmenn sína, konur sem hafi verið með honum í keppnisliði í WOW hjólreiðakeppninni. Atvikið sem hann segir forstjóra vísa til snúist um tölvupóst sem hann sendi fyrrnefndum konum í mars síðastliðnum.

Hann hafi hjólað nokkrum sinnum í hringum landið.

„Í svoleiðis félagsskap skapast sérstök stemmning og aulahúmor.“

Bjarni Már segist hafa lesið frétt á vef Morgunblaðsins sem honum hafi fundist fyndin. Þar sagði að rannsókn hefði sýnt fram á að konur sem hjóluðu stunduðu betra kynlíf.

„Ég tengdi þetta, fannst fyndið og sendi fréttina á samstarfskonur sem höfðu hjólað með mér,“ segir Bjarni Már. Í póstinum hafi hann hann skrifað „Þetta grunaði mig“ og því fylgdi broskall.

Segist ekki vera dónakall

Strax daginn eftir hafi hann áttað sig á því að óviðeigandi væri fyrir hann að senda slíkan póst sem yfirmaður kvennanna.

„Ég sendi þeim öllum svar og baðst afsökunar á þessum aulahúmor. Hann var alls ekki viðeigandi í ljósi stöðu minnar og ég sá mjög mikið eftir því ásamt öðru ógætilegu orðavali innan um samstarfsfólk. Ég baðst afsökunar á því þegar ég kvaddi starfsfólkið í morgun.“

Hann sé þó ekki sá dónakall sem fólk gæti ætlað af fréttaflutningi í dag.

„Mér finnst illt að sitja undir þessum dónakallsstimpli. En ætli ég geti ekki sjálfum mér um kennt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×