Erlent

Dó þegar hjólhýsi fauk fram af kletti

Samúel Karl Ólason skrifar
Öldur skella á ströndum Skotlands.
Öldur skella á ströndum Skotlands. Getty/Jeff J Mitchell
Kona lést á Írlandi í morgun þegar hjólhýsi hennar fauk fram af kletti. Óveðrið Ali herjar nú á hluta Bretlandseyja með kröftugum vindum og rigningu. Minnst 80 þúsund heimili eru án rafmagns á Írlandi og Norður-Írlandi. Er fólk varað við því að vera á ferðinni á Írlandi, Skotlandi og norðurhluta Englands í dag.

Óttast er að byggingar og innviðir verði fyrir skemmdum og sömuleiðis stafar fólki ógn af óveðrinu.

Konan sem dó mun hafa verið á ferðalagi, samkvæmt BBC, og hafði hún lagt hjólhýsi sínu á tjaldsvæði við ströndina nærri bænum Claddaghduff. Hjólhýsið fauk þar fram af kletti og út í sjó.

Þá fór lest út af sporinu í Skotlandi vegna trjáa sem höfðu brotnað og lent á teinunum. Óttast er að mikil rigning sem mun fylgja Ali á morgun gæti leitt til flóða á Bretlandseyjum og þá sérstaklega í Wales.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×