Erlent

Löfven segir úr­slitin vera dauða blokka­pólitíkurinnar

Birgir Olgeirsson skrifar
Stefan Löfven, formaður jafnaðarmannaflokksins, ávarpar stuðningsmenn sína.
Stefan Löfven, formaður jafnaðarmannaflokksins, ávarpar stuðningsmenn sína. Vísir/EPA
Stefan Löfven, formaður jafnaðarmannaflokksins, ávarpaði stuðningsmenn sína í kvöld þar sem hann sagði úrslit þingkosninganna í Svíþjóð vera dauða blokkapólitíkurinnar.

Löfven er forsætisráðherra Svía en flokkur hans er með 28,4 prósenta fylgi eftir kosningarnar og tapaði um 2,8 prósenta fylgi.

Ulf Kristersson, formaður hægriflokksins Modertana, kallaði eftir afsögn Löfven fyrr í kvöld en forsætisráðherra varð ekki við því í ávarpi sínu.

Löfven sagði þess í stað að nú þyrfti að leita leiða til að mynda ríkisstjórn sem næði yfir miðjuna. 

Í Svíþjóð hafa verið myndaðar hægri og vinstri blokkir þar sem jafnaðarmenn er stærstir á vinstri vængnum og Modertana stærstir á hægri. Enginn skýr meirihluti er í sjónmáli og því þurfi að leita yfir miðjuna að mati Löfven.

Báðir flokkar hafa lýst sig andvíga því að vinna með Svíþjóðardemókrötunum sem bættu við sig miklu fylgi í kosningunum í ár, en þó ekki eins miklu og spáð var.

Modertana flokkurinn er með 29.5 prósenta fylgi og Svíþjóðardemókratar 17,7 prósenta fylgi.

Formaður Svíþjóðardemókrata, Jimmie Akesson, var sigri hrósandi þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína fyrr í kvöld. Hann sagði Svíþjóðardemókrata vera reiðubúna til viðræðna við alla flokka eftir kosninganna og taldi flokkinn sinn eiga eftir að hafa mikið um að segja hvaða stefnu Svíþjóð tekur á næstu vikum, mánuðum og árum.

Svíþjóðardemókratar hafa lagst hart gegn innflytjendastefnu Svía og aðild þjóðarinnar í Evrópusambandinu.

Löfven var harðorður í garð Svíþjóðardemókrata í ávarpi sínu. Hann sagði þá ekki færa neitt fram sem muni hjálpa sænska samfélaginu. 

„Þeir munu aðeins auka sundrung og hatur,“ sagði Löfven og bætti við að það væri á ábyrgð allra flokka að mynda stjórn án Svíþjóðardemókrata.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×