Viðskipti innlent

Boðskort hækkaði hlutabréf í Apple

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Búist er við að nýir snjallsímar Apple verði kynntir til leiks þann 12. september næstkomandi.
Búist er við að nýir snjallsímar Apple verði kynntir til leiks þann 12. september næstkomandi. vísir/getty
Hlutabréfaverð í Apple nái nýjum hæðum í gærkvöldi eftir að fyrirtækið sendi frá sér kort þar sem velvöldum einstaklingum var boðið til viðburðar í höfuðstöðvum Apple í Cupertino í Sílíkondalnum. Talið er að fyrirtækið muni nýta tækifærið og kynna nýjar útgáfur af iPhone-símum.

Háværir orðrómar hafa verið uppi um að Apple hyggist kynna til leiks þrjá nýja snjallsíma á þessu ári. Búist er við að ein útgáfan verði með 6,5 tommu skjá sem yrði þá stærsti iPhone-síminn sem Apple hefur framleitt frá því að síminn var fyrst kynntur til leiks árið 2007. Þá er talið að skjár símans verði „sparneytnari“ en skjárinn á iPhone X og ætti rafhlaða símans því að endast betur.

Þá er einnig von á uppfærslu á iPhone X símanum þar sem áhersla verður lögð á hraða sem og betri gæði myndavélarinnar. Athygli vekur að einnig er von á ódýrari útgáfu af iPhone X sem á að koma í stað iPhone 8.

Sjá einnig: Apple sagt í vandræðum með heiti á nýjum útgáfum iPhone

Fyrrnefnt boðskort var gyllt og telja spekúlantar það til marks um að hægt verði að fá nýja símann í sambærilegum lit.

The Guardian reifar einnig orðróma þess efnis að snjallúr fyrirtækisins, Apple Watch, gæti átt von á uppfærslu. Hún muni ekki síst felast í tölvert stærri skjá en á síðustu útgáfu.

Öllum þessum orðrómum verður þó formlega svarað á viðburðinum sem Apple hefur boðað til, sem haldinn verður þann 12. september næstkomandi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×