Forseti Taívan, Tsai Ing-wen, sagði í dag að ríkið myndi ekki láta undan þrýstingi nágranna sinna,sem reglulega fljúga sprengjuflugvélum í kringum Taívan. Þá sagði hún ákvörðun El Salvador til marks um viðleitni Kína til að einangra eyríkið. Búrkína Fasó, Dóminíska lýðveldið, Saó Tóme og Prinsípe og Panama höfðu áður slitið samskiptum sínum við Taívan.
„Við munum snúa okkur að ríkjum sem virða sömu gildi og við, til þess að berjast í sameiningu gegn stjórnlausu háttalagi Kína í alþjóðasamskiptum,“ sagði Tsai.
Utanríkisráðherra Taívan sagði ríkisstjórn El Salvador hafa beðið ríkið um fjárhagsaðstoð vegna byggingar nýrrar hafnar en Taívan hefði ekki getað orðið við þeirri beiðni.
Áratugagamlar deilur
Kínverjar hafa gert tilkall til Taívans allt frá árinu 1949 þegar leiðtogar lýðveldissinna í Kína flúðu þangað undan kommúnistum og stofnuðu þar ríki, sem þeir kölluðu, og kalla raunar enn, Lýðveldið Kína. Afar grunnt hefur verið á því góða á milli ríkjanna allar götur síðan.
Núverandi ríkisstjórn Taívan er hliðholl því að lýsa formlega yfir sjálfstæði.
Bandaríkin hafa lengi átt í óformlegum samskiptum við Taívan og varnarsamstarfi en viðurkenna hins vegar ekki Taívan opinberlega. Undir stjórn Donald Trump hafa samskipti Taívan og Bandaríkjanna hins vegar orðið formlegri. Bandaríkin og Taívan hafa gert tvo sáttmála sín á milli og hefur það valdið miklum áhyggjum í Peking.
Sendiherra Bandaríkjanna í El Salvador, Jean Manes, skrifaði á Twitter í dag að Bandaríkin myndu taka ákvörðun ríkisstjórnar El Salvador til skoðunar. Ákvörðunin hefði verið slæm og hún myndi hafa áhrif á samband Bandaríkjanna og ríkisstjórnar El Salvador.
EE.UU está analizando la decisión de #ElSalvador. Es preocupante por muchas razones, entre las que se incluye romper una relación de más de 80 años con #Taiwán. Sin duda, esto impactará nuestra relación con el gobierno. Seguimos apoyando al pueblo salvadoreño.
— Jean Manes (@USAmbSV) August 21, 2018