Viðskipti innlent

Ríkið mun geta gefið út skuldabréf til lengri tíma en 25 ára

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. VÍSIR/PJETUR
Íslenska ríkið mun geta gefið út skuldabréf til lengri tíma en 25 ára verði frumvarp sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur samið að lögum. Ráðuneytið hefur birt drög að frumvarpinu en í greinargerð sem því fylgir segir að ríkisskuldabréf til lengri tíma en 25 ára geti verið „ákjósanlegur fjárfestingarkostur“ fyrir lífeyrissjóði og aðra fjárfesta með langtímaskuldbindingar.

Ætla megi að fyrirsjáanleg stækkun lífeyrisjóðanna á næstu árum og áratugum geti leitt til aukinnar eftirspurnar eftir lengri skuldabréfum af þeirra hálfu. Í greinargerðinni er jafnframt tekið fram að útgáfa lengri skuldabréfa geti auðveldað ríkissjóði að ná markmiðum sínum um meðallánstíma lánasafns síns en gert er ráð fyrir að sá tími sé á bilinu fimm til sjö ár.

Þó segir að núverandi stefna í lánamálum geri ekki ráð fyrir að slíkur möguleiki verði nýttur nema ef sýnt þætti að slík útgáfa hefði „verulega hagkvæmni“ í för með sér fyrir ríkissjóð. Er einnig bent á að mörg ríki hafi á undanförnum árum gefið út skuldabréf til lengri tíma en 30 ára í þeim tilgangi að læsa inn sögulega lága vexti og tryggja þannig hagstæða fjármögnun til framtíðar.

Þó er tekið fram að skuldaþróun Íslands í samanburði við önnur ríki sé „verulega hagstæð þar sem skuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt á undanförnum árum ólíkt mörgum öðrum löndum þar sem skuldahlutfall er enn hækkandi“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×