Sport

Frestaði bardagaviðræðum á meðan ég finn nýjan þjálfara

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kolbeinn Kristinsson.
Kolbeinn Kristinsson. vísir/valli
Hnefaleikakappinn Kolbeinn Kristinsson er á leiðinni til Bandaríkjanna í viðræður við nýjan þjálfara. Eru þrír mánuðir liðnir síðan hann vann sannfærandi sigur á Genn­adi Mentsikainen í Finnlandi og um leið tíunda atvinnumannabardaga sinn.

Er Kolbeinn ósigraður sem atvinnumaður í hringnum og í 159. sæti í þungavigt á heimsvísu en hefur farið hraðbyri upp þann lista.

Hann segist vera búinn að setja það á ís í bili að finna sér nýjan bardaga þar til hann verði kominn með nýjan þjálfara.

„Ég sló á frest öllum viðræðum um bardaga á dögunum þegar ég tók ákvörðun um að skipta um þjálfara. Ég fer til Finnlands á næstu dögum þar sem ég aðstoða annan hnefaleikakappa við að undirbúa sig og stuttu síðar fer ég til Bandaríkjanna í viðræður,“ segir Kolbeinn sem er búinn að vera í sambandi við einn þjálfara í Detroit og mun hitta hann.

Eftir að hafa barist fjórum sinnum árið 2016 lenti hann í leiðinda meiðslum sem gerðu það að verkum að hann náði aðeins einum bardaga í fyrra.

„Ég fór í aðgerð síðasta sumar og það tók góða sex mánuði að ná sér en það er ekkert að angra mig í dag. Það er bara búið að vera tímafrekt að standa í þessum þjálfaramálum, það er margt sem þarf að huga að.“

Hann kveðst spenntur fyrir því að komast inn í hringinn á ný og er tilbúinn að finna bardaga um leið og þjálfaramálin leysast.

„Mann er farið að klæja aðeins í fingurna, ég sagði við teymið mitt að um leið og þjálfaramálin væru klár þá mætti skipuleggja næsta bardaga. Það sem vantaði alltaf var reyndari skipstjóra til að stýra skipinu,“ segir Kolbeinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×