Erlent

Könnun sýnir stuðning við aðra Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslu

Kjartan Kjartansson skrifar
Brexit-umræðunni er hvergi nærri lokið.
Brexit-umræðunni er hvergi nærri lokið. Vísir/Getty
Um helmingur svarenda í skoðanakönnun sem birt var á Bretlandi í dag segir að breskir kjósendur ættu að fá lokaorðið um hvort þeir vilja ganga úr Evrópusambandinu ef samningar nást ekki á samskiptin eftir Brexit.

People's Vote, samtök sem krefjast annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit, létu gera könnunina. Samkvæmt henni vilja 45% Breta aðra þjóðaratkvæðagreiðslu óháð því hvernig viðræður bresku ríkisstjórnarinnar og Evrópusambandsins fara en 34% er því mótfallin.

Þegar spurt var um hver ætti að taka ákvörðun um útgöngu úr sambandinu ef engir samningar nást sögðust 50% vilja þjóðaratkvæðagreiðslu. Fjórðungur vildi að þingmenn tækju ákvörðunina, að því er segir í frétt Reuters af könnuninni.

Hvorki hefur gengið né rekið í viðræðum Breta og ESB um hvernig sambandi þeirra verður háttað eftir útgönguna sem á að taka gildi á næsta ári. Ástæðan er ekki síst sundrung innan Íhaldsflokks Theresu May forsætisráðherra.

Sumir íhaldsmenn hafa talað fyrir því að yfirgefa ESB án þess að nokkuð samkomulag liggi fyrir.

Svarendur í könnun People's Vote voru beðnir um að taka afstöðu til þriggja kosta: að vera áfram í ESB, ganga úr ESB án samnings eða ganga úr ESB á grundvelli tillögu May forsætisráðherra um takmarkaða aðild að innri markaði sambandsins.

Af þeim kostum vildu flestir vera áfram i sambandinu, alls 40%. Rúmur fjórðungur vildi yfirgefa það án samnings og ellefu prósent vildu yfirgefa það á forsendum May.


Tengdar fréttir

Bretar andsnúnir áformum May

Einungis sextán prósent Breta telja að Theresa May forsætisráðherra standi sig vel þegar kemur að komandi útgöngu ríkisins úr Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×