Erlent

Búist við afsögn sjávarútvegsráðherra Noregs

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Per Sandberg  fór til Íran í júlí.
Per Sandberg fór til Íran í júlí. Vísir/EPA
Per Sandberg mun í dag segja af sér sem sjávarútvegsráðherra Noregs. Tilkynnt verður um eftirmann hans síðar í dag, að sögn heimildarmanna Aftenposten sem sagðir eru þekkja til málsins.

Sandberg hefur sætt gagnrýni að undanförnu eftir að upp komst að hann hafði varið sumarfríi sínu í Íran, án þess að gera forsætisráðuneytinu viðvart fyrirfram. Fríinu varði hann með kærustu sinni, hinni 28 ára gömlu Bahareh Letnes, sem er af írönskum uppruna. Ætlast er til þess að norskir ráðherrar tilkynni um utanlandsferðir sínar með góðum fyrirvara enda þurfi forsætisráðherra landsins ætíð að vera upplýstur um hvar ráðherrar hans eru niðurkomnir. Upp geti komið aðstæður þar sem nærveru þeirra er óskað með skömmum fyrirvara.

Sjá einnig: Arftakinn álíka umdeildur og Listhaug



Ráðherrann sagði að Íransferðin væri tilkomin vegna ófyrirséðra breytinga á ferðalagi sínu og að hann hafði látið forsætisráðuneytið vita tveimur sólahringum eftir komuna til landsins. „Ég lét ráðuneytið [sjávarútvegsr.] vita daginn eftir að ég kom til Írans og forsætisráðuneytið daginn eftir það,“ sagði Sandberg í samtali við NTB.

Með því viðurkenndi Sandberg að hafa brotið siðareglur norskra ráðherra, sem nálgast má hér.

Talsmaður forsætisráðuneytisins vildi lítið tjá sig um væntanlega afsögn Sandberg í samtali við Aftenposten í morgun. „Við tjáum okkur aldrei um svona orðróma,“ er haft eftir talsmanninum, Treude Måseide, á vef blaðsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×