Innlent

Vara við hættunni vegna frétta af neyslu ungmenna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Landlæknisembættið hefur áhyggjur af ástandinu.
Landlæknisembættið hefur áhyggjur af ástandinu. Vísir/Stefán
Landlæknisembættið varar við misnotkun á ávanabindandi lyfjum. Embættið kemur upplýsingunum á framfæri vegna frétta sem fluttar hafa verið af notkun ungmenna á lyfjunum.

Sjá einnig: Gagnrýnir brottvísun sonar síns af meðferðarheimili: „Nú væri hægt að grípa inn í áður en allt fer til fjandans“

„Ef of stór skammtur ávanabindandi lyfja er tekinn geta afleiðingarnar verð bæði bráðar og óafturkræfar fyrir einstaklinginn,“ segir í tilkynningu frá Landlækni.

Þá eru teknar saman nokkrar tegundir slíkra lyfja og afleiðingar sem neysla þeirra kynni að hafa í för með sér.

Við neyslu sterkra verkalyfja á borð við oxycontin, fentanyl og contalgin er varað við blóðþrýstingsfalli, svefnhöfgi og hættu á dái eða dauða vegna öndunarbælingar. Þessi lyf eru jafnframt sögð þau hættulegustu.

Þá er varað við neyslu róandi lyfja á borð við alprazolam (innihaldsefni í Xanax), sobril og stesolid. Þau geti verið lífshættuleg séu þau tekin með áfengi og öðrum lyfjum sem hafa bælandi áhrif á miðtaugakerfið.  

Bráð ofskömmtun örvandi lyfja eins og amfetamíns, ritalíns og concerta getur leitt til krampa, ofskynjana, óráðs, ofurhita, hraðtakts og háþrýstings.

Þá er fólki ráðið frá notkun margra efna samtímis. Einnig er bent á að lyf sem eru flutt inn af einstaklingum eða búin til á ólöglegan hátt eru mun hættulegri en önnur þar sem þau geta innihaldið ýmis aukaefni.

„Dæmi um slíkt lyf er Xanax sem ekki er á markaði hér á landi. Xanax inniheldur alprazolam og iðulega önnur efni sem bætt hefur verið við.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×