Körfubolti

Strákarnir spila um fimmta sætið eftir flottan sigur á Rúmenum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ástþór Atli Svalason.
Ástþór Atli Svalason. Mynd/FIBA Europe
Íslenska sextán ára landsliðið í körfubolta tryggði sér sæti í leiknum um fimmta sætið á EM-B í Bosníu eftir fjórtán stiga sigur á Rúmenum í dag.

Ísland vann leikinn 73-59 eftir að hafa verið sex stigum yfir í hálfleik, 39-33.

Íslensku strákarnir töpuðu fyrir heimamönnum í Bosníu í átta liða úrslitunum í gær en náðu að rífa sig upp fyrir leikinn í dag. Liðið spilar síðan við Pólland um fimmtá sætið á morgun.

Það voru eins og oft áður hjá þessu liði margir að leggja til í poúkkið og íslenska liðið fékk sem dæmi 42 stig inn af bekknum í leiknum.

Skallagrímsmaðurinn Marinó Þór Pálmason var atkvæðamestur með 13 stig en hann hitti meðal annars úr 3 af 4 þriggja stiga skotum sínun í leiknum.

Stjörnumaðurinn Friðrik Anton Jónsson var með 11 stig og 5 fráköst og Valsmaðurinn Ástþór Atli Svalason skoraði 10 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Tvíburabræðurnir frá Ísafirði, Hilmir og Hugi Hallgrímssynir skoruðu síðan átta og sjö stig. Stjörnumaðurinn Magnús Helgi Lúðvíksson var síðan með 7 stig.

Þjálfari íslenska liðsins er Ágúst Björgvinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×