„Þetta eru þau tækifæri sem við sjáum á borðinu en í mínum huga eru tækifærin meiri,“ segir Eggert við Fréttablaðið.
„Engin spurning“ sé um það að N1 verði gjörbreytt félag eftir þrjú til fimm ár. Minna muni fara fyrir „olíufélagsandanum“.
Í tilkynningu N1 til Kauphallarinnar segir gert ráð fyrir að samlegðaráhrif af kaupum N1 á Festi, næststærstu smásölukeðju landsins, sem Samkeppniseftirlitið samþykkti gegn skilyrðum, verði á bilinu 500 til 600 milljónir og muni koma fram á næstu 12 til 18 mánuðum.
„Til framtíðar tel ég,“ nefnir Eggert Þór, „að samruninn muni skila meiri samlegðaráhrifum, en það tekur meiri tíma að ná því fram.“
Eftir margra mánaða rannsókn Samkeppniseftirlitsins og sáttaviðræður N1 og fulltrúa eftirlitsins segist Eggert Þór afar sáttur við málalyktir.
„Þetta eru stór viðskipti, að ég held þau stærstu eftir hrun, og við vissum að við yrðum að láta eitthvað af hendi til þess að fá kaupin samþykkt.“

Fjárfestar tóku vel í fregnirnar af samþykki samkeppnisyfirvalda. Til marks um það hækkuðu hlutabréf N1 um 11,5 prósent í verði í 570 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í gær. Hlutabréfaverð í Högum hækkaði jafnframt umtalsvert eða um 5,5 prósent í 210 milljóna veltu en Samkeppniseftirlitið hefur kaup smásölurisans á Olís enn til rannsóknar.
Endanlegt kaupverð, það er heildarvirði Festar að frádregnum vaxtaberandi skuldum, er ríflega 23,7 milljarðar króna og greiðist annars vegar með afhendingu hátt í 80 milljóna hluta í N1 á genginu 115, samtals að virði 9,2 milljarðar króna, og hins vegar með 14,6 milljarða króna greiðslu í reiðufé. Hækkaði kaupverðið um nokkur hundruð milljónir króna – miðað við verðið sem gert var ráð fyrir í viljayfirlýsingu N1 og Festar í júní í fyrra – vegna sterkrar afkomu rekstrarfélaga Festar á síðasta fjárhagsári sem lauk í febrúar.

„Það er engin spurning að sameinað félag er mun líklegra til þess að geta brugðist við breyttum markaði heldur en þessi tvö félög í sitt hvoru lagi,“ segir Eggert Þór og nefnir sem dæmi tækifæri í samþættingu í rekstri félaganna og betri nýtingu á staðsetningum verslana og bensínstöðva.
Tækifærin séu sérstaklega mikil á landsbyggðinni þar sem staða N1 sé sterk en Krónunnar hins vegar veik.
Eggert Þór segir að þótt sameinað félag verði „stórt og sterkt“ verði það engu að síður litli bróðir Haga.
Samanlagðar tekjur N1 og Festar voru um 75 milljarðar á síðasta rekstrarári en til samanburðar voru samanlagðar tekjur Haga og Olís ríflega 100 milljarðar. „Það er við ansi stóran bróður að berjast þar,“ segir Eggert Þór.