Erlent

Sænskum konungsdjásnum stolið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Djásnin eru frá valdatíð Karls hertoga, sem var betur þekktur sem Karl níundi.
Djásnin eru frá valdatíð Karls hertoga, sem var betur þekktur sem Karl níundi. Alamy
Skargripaþjófar flýja nú sænska lögreglumenn eftir að þeim tókst að nappa konungsdjásnum úr dómkirkju einni í bænum Strängnäs, áður en þeir stungu af á hraðbáti.

Þjófnaðurinn átti sér stað í hádeginu í gær. Þjófarnir eru sagðir hafa laumað sér inn í dómkirkjuna, sem gnæfir yfir smábæinn vestan af Stokkhólmi, en hún var opin fyrir gesti og gangandi. Þeir gripu með sér tvær kórónur og veldishnetti á meðan athygli fólks beindist að sýningu sem fram fór á torginu fyrir framan kirkjuna. 

Munirnir eru frá upphafi 17 aldar, úr valdatíð Karls níunda Svíakonungs, og eru taldir ómetanlegir.

Tom Rowell, maður sem hyggst gifta sig í dómkirkjunni í næstu viku, sagðist í samtali við Aftonbladet hafa séð tvo menn hlaupa út úr kirkunni, hoppa upp í hvítan hraðbát og bruna af stað. 

Dómkirkjan í Strängnäs.Alamy
Hann segir að ekki hafi farið á milli mála að um glæpamenn væri að ræða, af hátterni þeirra að dæma. „Það er fyrirlitlegt að fólk skuli ræna helgar og sögulegar byggingar,“ segir Rodwell.

Starfsmaður dómkirkjunnar tekur í sama streng og lýsir þjófnaðinum sem „gríðarlegu menningarlegu- og fjárhagslegu tjóni.“

Lögreglan hefur blásið til umfangsmikillar leitar, sem hefur lítinn árangur borið enn sem komið er.

„Staðan er 1-0 fyrir þeim þessa stundina,“ segir talsmaður lögreglunnar í samtali við Aftonbladet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×