Erlent

Aðallestarstöð rýmd vegna fanga á flótta

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. Vísir/Getty
Ákveðið var að rýma aðaljárnbrautarstöðina í Kaupmannahöfn í gærkvöldi vegna leitar lögreglu að ótilteknum fanga sem lagt hafði á flótta.

Að því er TV2 sagði frá í gærkvöldi tók fjöldi þungvopnaðra lögreglumanna þátt í leitinni sem ekki bar árangur. Rætt var við konu sem sagðist hafa verið afar hrædd er öllum var skipað út.

Fram kom á vef Politiken að aðgerðirnar hefðu sett strik í ferðaáætlanir fjölmargra sem þurftu að bíða átekta fyrir utan lestarstöðina meðan á aðgerðum lögreglu stóð. Þeim lauk rétt fyrir klukkan ellefu að staðartíma, um einni og hálfri klukkustund eftir að þær hófust.

Lögregla upplýsti loks að fanginn væri ekki talinn hættulegur. Varðstjóri sagði málið ekki eins dramatískt og það liti út fyrir að vera. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×