Íslenski boltinn

Óli Jó: Það eru tilfinningar í þessu og stundum gerir maður vitleysu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, verður ekki á hliðarlínunni er liðið mætir Santa Coloma í síðari leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Valsmenn eru 1-0 undir eftir fyrri leikinn í Andorra en Ólafur segir að Íslandsmeistararnir séu klárir í slaginn og geti unnið muninn upp.

„Tvímælalaust. Við erum 1-0 undir og það er ekki góð staða en leikurinn úti var ekki góður. Við teljum okkur eiga meira inni. Þetta verður erfitt en það er vissulega möguleiki,” sagði Ólafur við Arnar Björnsson í gær.

„Við þurfum að vera skarpari í sóknarleiknum. Við vorum bara hálf sofandi í þeim leik. Við vorum ragir og hræddir fannst mér en við verðum það ekki hér á heimavelli.”

Ólafur var dæmdur í tveggja leikja bann eftir leik Vals og Rosenborgar í Þrándheimi þar sem hann var ekki sáttur með dómgæsluna og veifaði peningamerki upp í stúku er Rosenborg fékk víti í uppbótartíma.

„Ég horfi bara á hann eins og hinir. Ég veit ekki hvar ég verð. Ég má ekki skipta mér af liðinu. Þetta er bara venjulegt leikbann og ég hef nú áður fengið leikbann. Þetta er ekkert nýtt fyrir mig,” en er hann með móral yfir þessu?

„Nei, ég er það reyndar ekki. Þetta er ekki gott,” en er hann harður á því að það hafi verið maðkur í mysunni? „Nei, ég er ekkert harður á því. Það eru tilfinningar í þessu og stundum gerir maður vitleysu og fær það í bakið. Ég er alveg maður til að viðurkenna það.”

Allt innslagið úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×