Körfubolti

Kári búinn að semja við Barcelona

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Nýjasti liðsmaður Barcelona
Nýjasti liðsmaður Barcelona Vísir/Bára
Spænska stórveldið Barcelona hefur tilkynnt um komu Kára Jónssonar til félagsins en hann kemur til liðsins frá Haukum.

Kári, sem er aðeins tvítugur að aldri, var í lykilhlutverki hjá Hafnafjarðarliðinu í Dominos-deildinni á síðustu leiktíð en þessi öflugi bakvörður heldur nú til Katalóníu.

Hann var með 19,9 stig, 4,9 stoðsendingar og 4,6 fráköst með Haukum í Dominos-deildinni á síðustu leiktíð; þar af skoraði hann 20,2 stig að meðaltali í úrslitakeppninni.

Í tilkynningu Barcelona segir að Kári muni leika með B-liði félagsins fyrst um sinn hið minnsta en Barcelona hefur á að skipa einu besta körfuboltaliði Evrópu. Barcelona B leikur í spænsku B-deildinni og hafnaði í 12.sæti af 18 liðum á síðustu leiktíð.

Samningur Kára er til eins árs en hann hefur áður reynt fyrir sér erlendis þar sem hann lék í háskólaboltanum í Bandaríkjunum áður en hann sneri aftur heim til Hauka síðasta haust.

Kári er fyrsti íslenski körfuboltamaðurinn sem gerir atvinnumannasamning við Barcelona sem er eitt stærsta íþróttafélag heims. Nokkrir Íslendingar hafa verið á mála í hinum stóru boltaíþróttunum. Þeirra á meðal er Aron Pálmarsson sem er lykilmaður í handboltaliði Barcelona um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×