Erlent

Grunaður hryðjuverkamaður flúði úr dönsku fangelsi eftir að hafa þóst vera gestur

Atli Ísleifsson skrifar
Lestarumferð stöðvaðist um tíma í Kaupmannahöfn þegar lögregla leitaði strokufangans, auk þess að aðallestarstöð borgarinnar var rýmd.
Lestarumferð stöðvaðist um tíma í Kaupmannahöfn þegar lögregla leitaði strokufangans, auk þess að aðallestarstöð borgarinnar var rýmd. Vísir/EPA
Meirihluti er fyrir því á danska þinginu að herða eftirlit með gæsluvarðhaldsföngum eftir að grunuðum hryðjuverkamanni tókst að flýja  úr gæsluvarðhaldi í Vestre fangelsinu í Kaupmannahöfn í gær.

Fanginn, sem Ekstrabladet segir vera 46 ára Sýrlending, yfirgaf fangelsið þegar hann þóttist vera gestur sem hafði heimsótt hann. Maðurinn sem hafði heimsótt fangann þóttist á móti vera fanginn.

Fanginn ku vera með stöðu grunaðs í umfangsmikilli hryðjuverkarannsókn ítölsku lögreglunnar. Hann hefur verið í dönsku fangelsi síðan í janúar og stóð til að framselja hann til Ítalíu.

Beri einkenniskort

Fangelsismálastofnun Danmerkur hefur nú lagt til að öllum gæsluvarðhaldsföngum verði gert að bera einkenniskort, sambærilegum þeim sem fangar sem afplána dóm bera. Sömuleiðis á fólk sem heimsækir fanga ekki að geta yfirgefið fangelsið fyrr en fanginn er kominn aftur í fangaklefa sinn. Í frétt DR  kemur fram að meirihluti sé fyrir tillögunni á danska þinginu.

Lögreglu hefur enn ekki tekist að hafa hendur í hári fangans sem slapp. Lestarumferð stöðvaðist um tíma í Kaupmannahöfn þegar lögregla leitaði strokufangans, auk þess að aðallestarstöð borgarinnar var rýmd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×