Innlent

Skemmdir á Suðurlandsvegi vegna Skaftárhlaups

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þjóðvegi 1 við Eldhraun var lokað í dag vegna vatns úr Skaftárhlaupi sem flæddi yfir veginn. Svona var umhorfs á vegkaflanum í morgun.
Þjóðvegi 1 við Eldhraun var lokað í dag vegna vatns úr Skaftárhlaupi sem flæddi yfir veginn. Svona var umhorfs á vegkaflanum í morgun. Mynd/Ágúst freyr bjartmarsson
Njáll Fannar Reynisson vatnamælingamaður á Veðurstofunni segir erfitt að meta hvenær vatn hættir að flæða yfir Suðurlandsveg en hlaupið réni hægt.

Sjá einnig: Þjóðvegi 1 lokað um Eldhraun vegna vatns úr Skaftárhlaupi

Njáll Fannar Reynisson vatnamælingamaður á Veðurstofunni segir hlaupið réna hægt og hefur séð skemmdir vegna þess á Suðurlandsvegi.Vísir
„Það verður svona hávatnsstaða í hrauninu í dag og morgun og ekki gott að segja til um hversu lengi flæðir yfir veginn, þetta tekur alltaf einhvern tíma. Það flæðir yfir nokkur hundruð metra á veginum og vegurinn er nú þegar byrjaður að skemmast,“ segir Njáll. 

Hann segir að Skaftárhlaup hafi áður flætt yfir veginn en þetta sé í meira lagi.

„Hlaupið 2015 var frekar stórt og það fyllti uppí hraunið með aur og drullu svo versnar þetta bara þegar næsta hlaup kemur,“ segir hann.  

Hann segir að strax í morgun hafi verið byrjaðar að myndast bílaraðir við veginn og býst hann við mikilli umferð í dag. Þá gerir hann ráð fyrir að hlaupið taki nokkra daga í viðbót, jafnvel allt að viku.

Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar, sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að vatnið á þjóðvegi 1 um Eldhraun væri orðið of djúpt til þess að bílar geti farið yfir og var veginum því lokað. Er umferð beint um Meðallandsveg á meðan og er hjáleiðin talin tefja bílstjóra um 40-60 mínútur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×