Skoðun

Þjónustugjöld á Þingvöllum

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Gerræði, virðingarleysi við ferðaþjónustuna og skilningsleysi á samvinnu við hana – þetta er meðal þess sem stjórnendur þjóðgarða sýna ferðaþjónustunni að mati formanns Samtaka ferðaþjónustunnar. Nokkrar staðreyndir geta ef til vill linað þessar einkunnir Bjarnheiðar Hallsdóttur, hvað Þjóðgarðinn á Þingvöllum áhrærir.

Brugðist hefur verið við fjölgun ferðamanna þar á sjö árum, úr fáeinum hundruðum þúsunda á ári í 1,5 milljón, með ýmsum hætti. Stórauknu álagi á innviði og umhverfið er mætt með miklum framkvæmdum, nú síðast um 1.000 fermetra viðbót við miðstöðina á Hakinu og mikilli stækkun bílastæða. Þjónustugjöld standa undir verulegum hluta margra framkvæmda, þjónustu og rekstrar.

Blaðagrein um m.a. hækkun þjónustugjalda á Þingvöllum gerir best gagn innihaldi hún sanngjarnar upplýsingar um þau, svo sem stærðargráðuna í samanburði við verð til ferðamanna og hvað gjöldin fela í sér, ekki aðeins hækkun í prósentum eða upphæðin ein, án þess að lesandinn viti ofan á hvaða upphæð ferðafyrirtækja hún leggst. Þau verulega íþyngjandi gjöld sem BH nefnir eru m.a þessi: Gjald fyrir einka- eða bílaleigubíl á stæði er 750 kr. en var 500 kr. Ferðaþjónustan sem slík greiðir alla jafna ekki þessi gjöld. Hækkunin er heil 50% en um leið var salernisgjald (200 kr.) lagt niður en BH getur þess ekki. Fyrir ferðaþjónustubíl með allt að 8 farþegum er gjaldið 1.000 kr., en 1.800 kr. fyrir allt að 20 manna rútu og fyrir yfir 20 manna bíla er gjaldið 3.500 kr. Gullhringsferð kostar t.d. um 8.000 kr. í fullum 19 manna kálfi greiða ferðamenn 152.000 kr. fyrir ferðina. Kostnaðarauki ferðaþjónustunnar er 1.800 kr., eða um 90 kr. á farþega, og hægt er að tilkynna hópferðamönnunum að ekki sé greitt fyrir salernisnotkun, líkt og áður var. Í fullri stórrútu er kostnaðaraukinn enn minni á farþega. Vissulega aka hálftómir ferðaþjónustubílar um Þingvelli – hér er aðeins tekið dæmi til skýringar.

Silfrugjaldið hækkaði í 1.500 kr. vegna þess að lagt hefur verið í margra milljóna króna kostnað með þjónustuhúsum á staðnum og öðrum úrbótum, m.a. sjúkraflutningamanni á vakt í þjóðgarðinum. Gjaldið var 1.000 kr., óbreytt frá 2012, og tvöfaldaðist ekki eins og BH skrifar. Köfun í Silfru kostar frá 14.000 kr. til 35.000 kr. og þær upphæðir hækka þá um 750 kr. Hóf hefur verið í heiðri haft.

Höfundur er formaður Þingvallanefndar




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×