Erlent

Loka landamærunum við Venesúela

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flestir Venesúelabúar sem flýja heimalandið eiga í erfiðleikum með að finna húsaskjól í Brasilíu.
Flestir Venesúelabúar sem flýja heimalandið eiga í erfiðleikum með að finna húsaskjól í Brasilíu. Vísir/epa
Búið er að loka landamærum Brasilíu við Venesúela. Lokuninni er ætlað að stöðva straum flóttafólks frá nágrannaríkinu en þúsundur Venesúelabúa hafa leitað tækifæra og öryggis í Brasilíu.

Héraðsstjórnin í Roriama, í norðanverðum Amasón-regnskógunum, segja að um 800 flóttamenn leiti yfir landamærin á hverjum degi. Héraðið ráði ekki við þann fjölda og því hafi verið ákveðið að loka landamærunum, rétt á meðan verið er að „innleiða réttu skilyrðin“ fyrir móttöku þeirra - eins og það er orðað á vef breska ríkisútvarpsins.

Landamærin verði þó áfram opin Brasilíumönnum sem og þeim Venesúelabúum sem halda aftur til síns heima. Lokunin hefur að sama skapi ekki áhrif á ríkisborgara annarra landa.

Þúsundir Venesúelabúa hafa flúið heimaland sitt á síðustu árum sökum bágs efnahagsástands og eldfimra stjórnmálaátaka. Flestir hafa leitað til nágrannaríkjanna Kolumbíu og Brasilíu. Ætla má að ástandið komi til með að versna eftir misheppnað banatilræði um helgina, þegar reynt var að sprengja forsetann Nicolas Maduro í loft upp.

Fyrrnefnt Roriama-hérað er eitt það fátækasta í Brasilíu. Venesúelabúarnir sem þangað flýja hírast flestir í fátækrahverfum og eiga vart til hnífs og skeiðar. Héraðstjórnin hefur lengi kallað eftir því að landamærunum verði lokað, en þau segja flóttamannastrauminn hafa sligað innviði héraðsins og hækkað glæpatíðnina.

Brasilísk stjórnvöld hafa mótmælt lokun landamæranna og segjast áfram ætla að koma nágrönnum sínum til aðstoðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×