Innlent

Bættist í rennsli yfir Suðurlandsveg í nótt

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Töluvert vatn flæðir yfir Suðurlandsveg rétt vestan við Kirkjubæjarklaustur.
Töluvert vatn flæðir yfir Suðurlandsveg rétt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Ágúst Freyr Bjartmarsson

Suðurlandsvegur við Kirkjubæjarklaustur er ennþá lokaður en í nótt bættist í rennsli yfir veginn. Verið er að kanna aðstæður á Fjallabaksvegi nyrðri og standa vonir til þess að þar verði hægt að opna þar fyrir umferð á ný í dag. Fólk er varað við að vera nálægt Skaftá vegna brennisteinsvetnis sem hefur mælst á svæðinu.

Vatn frá Skaftárhlaupi byrjaði að flæða yfir Suðurlandsveg við Kirkjubæjarklaustur í gær. Vegagerðin veitti vatni meðfram veginum en í nótt bættist enn í rennslið.

Sýnileg aukning

Ágúst Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík, segir að vatn á Suðurlandsvegi hafi aukist lítillega. „Það er sýnileg aukning, þannig að það hefur ekki minnkað.“ Þetta sé um 500 metra kafli sem um ræðir og að rennsli þar sé stöðugt.

Ágúst segir biðstöðu vera hjá Vegagerðinni. „Við gerum nú voða lítið á meðan vatnið er svona mikið. En við fylgjumst með og erum á staðnum.“ Hann segir að björgunarsveitarmenn séu á vakt og loki veginum sitt hvoru megin og hleypi inn á Meðalland. Talsverð umferð hefur verið um Meðallandsveg en fólki hefur verið sagt að aka þá leið frá því í gær. Ágúst var að fara að kanna hvernig ástandið var á Fjallabaksleið nyrðri en vonir standa til að vegurinn þar verði opnaður í dag.

Brennisteinslykt

Veðurstofan varar fólk við að vera nálægt Skaftá en brennisteinsvetni hefur mælst á svæðinu. Skaftárhlaup er hægt í rénun en rennsli við Sveinstind mældist um 450 rúmmetrar á sekúndu í morgun en var 1.550 þegar það var mest. Í síðasta hlaupi var rennslið um 2.000 rúmmetrar á sekúndu þegar það var mest.

Á kortinu má sjá staðsetningu rennslisins yfir Suðurlandsveg og hjáleiðina um Meðallandsveg.Loftmyndir

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×