Viðskipti innlent

Verri rekstraraðstæður skýra lægra verðmat á hlutabréfum HB Granda

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda. Fréttablaðið/Anton Brink
Greinendur ráðgjafarfyrirtækisins Capacent meta gengi hlutabréfa í HB Granda á 24,9 krónur á hlut í nýju verðmati og segja markaðsgengi bréfanna of hátt fyrir hinn almenna fjárfesti. Erfitt sé að sjá að gengið hækki mikið eftir að Brim eignaðist ríflega þriðjungshlut í sjávarútvegsfélaginu.

Verðmatsgengi Capacent er um 27 prósentum lægra en gengi hlutabréfa í HB Granda stóð í – 34 krónur á hlut – við lokun markaða í gær. Hefur verðmat greinendanna lækkað um tvö prósent frá fyrra mati en endurskoðuð rekstraráætlun þeirra skýrir lækkunina að mestu leyti. Þannig gera sérfræðingar Capacent ráð fyrir að rekstrarhagnaður HB Granda verði 32,5 milljónir evra í ár en áður höfðu þeir spáð rekstrarhagnaði upp á 35 milljónir evra.

Verðmat Capacent á sjávar­útvegsfyrirtækinu hefur lækkað um 17 prósent frá sumrinu 2016, þegar greinendurnir mátu gengi bréfanna á 29,9 krónur á hlut, en ástæðan er sögð sífellt versnandi rekstraraðstæður félagsins. Á móti verri horfum hafi stjórnendur HB Granda þó gripið til hagræðingar­aðgerða. Telja greinendur Capacent að helst gæti barátta um yfirráð í sjávarútvegsfélaginu eða hraustleg dýfa krónunnar hækkað verðmæti þess.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×