Sport

Ásdís einu sæti frá því að komast í úrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir. Vísir/Getty
Ásdís Hjálmsdóttir endaði í 13. sæti í undankeppni spjótkasts kvenna á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum í Berlín.

Tólf komust áfram í úrslit og var okkar kona því einu sæti frá því að komast þangað.

Þetta er í fjórða sinn á ferlinum þar sem Ásdís er einu sæti frá því að komast í úrslit á stórmóti. Hún lenti einnig í þessu á HM í Daegu 2011, EM í Helsinki 2012 og EM í Zürich 2014.

Ásdís kastaði lengst 58,64 metra í fyrsta kasti en náði ekki betra kasti í hinum tveimur.

Hún var í fyrri riðlinum og var ólíkleg áfram. Á endanum munaði þó „bara“ 65 sentímetrum að hún fengi farseðilinn í úrslitin.

Sú síðasta inn var Alexie Alais frá Frakklandi en hún keppti í riðli Ásdísar og kastaði 59,29 metra.

Íslandsmet Ásdísar er 63,43 metrar og hún hafði kastað lengst 60,34 metra á þessu ári.

Þetta er í sjötta sinn sem Ásdís keppir á EM en hún komst í úrslitin á EM 2010 í Barcelona og á EM í Amsterdam fyrir tveimur árum þar sem hún endaði í áttunda sæti.

Sæti Ásdísar Hjálmsdóttir á EM í frjálsum:

2006 í Gautaborg - 25. sæti (51,33 metrar)

2010 í Barcelona - 10. sæti (54,32 metrar)

2012 í Helsinki - 13. sæti (55,29 metrar)

2014 í Zürich - 13. sæti (56,36 metrar)

2016 í Amsterdam - 8. sæti (60,37 metrar)

2018 í Berlín - 13. sæti (58,64 metrar)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×